Að fresta fram að hófi

Kristján Gauti Karlsson

Það hefur verið mér sannur heiður að fá að sitja í ritstjórastólnum undanfarnar þrjár vikur. Ekki síst hefur mér þótt ánægjulegt að vera ávarpaður „herra ritstjóri“, en þann sið innleiddi ég hér á skrifstofunni strax á fyrsta degi.

Það eru ýmis verk sem tilheyra starfi ritstjóra sem ég er óvanur að inna af hendi. Eitt þeirra er að skrifa leiðara. Fyrir mann sem hneigist til frestunar á hinu og þessu er leiðarinn algjör draumur. Gerð hans er engum háð nema leiðarahöfundi. Honum er því tilvalið að fresta fram á elleftu stundu, og jafnvel ögn lengur ef kostur er. Eitt þarf ég að játa fyrir þér, lesandi góður: Ég er að skrifa einmitt þennan leiðara jafnóðum og þú ert að lesa hann. Sem betur fer vélrita ég frekar hratt. En ef þú ert mjög hraðlæs gætirðu á einhverjum tímapunkti farið fram úr mér í textanum og ekki……

…..fyrr en þú hægir á lestrinum aftur. Þá náum við aftur takti og getum leiðst hönd í hönd í gegnum þær raunir sem hér á eftir fylgja.

Hér að ofan var vitaskuld fært í stílinn. Ég frestaði þessu ekki um of. Ég skrifaði leiðarann í gær, daginn fyrir útgáfu og hafði til þess nokkuð passlegan tíma.

Annars hlustaði ég á ansi merkilegan TED fyrirlestur fyrr í vikunni. Hann fjallaði einmitt um frestun og þá sem fresta verkum sínum þar til þau eru farin að verða verulega aðkallandi. Í stuttu máli hafði fyrirlesarinn í rannsókn sinni komist að því að þeir sem fresta verkum sínum passlega mikið eru þeir sem eru meira skapandi, kreatífari en meðalmaðurinn. Þeir sem fresta aldrei heldur ganga beint í öll sín verk eru ekkert sérstaklega skapandi, né þeir sem fresta öllu fram á elleftu stundu. En af hverju? Jú, þeir sem finna gullna meðalveginn hafa í raun gefið sér tíma til að velta viðfangsefninu fyrir sér frá fleiri hliðum en þeir sem byrja strax og ljúka verkum sínum löngu fyrir uppgefinn skilafrest. Hinir, sem fresta þar til þeir eru orðnir of seinir og skila því of seint af sér, vinna verkið undir of miklu álagi til að geta velt viðfangsefninu almennilega fyrir sér. Eins og um svo margt annað virðist það skipta máli að finna hinn gullna meðalveg til að geta látið sér detta eitthvað sniðugt í hug.

Lesendur hafa ef til vill höggvið eftir því hér í öðrum kafla hvar leiðarahöfundur gat þess að hann hefði í raun ekki verið allt of seinn, heldur fundið hinn gullna meðalveg. Það væri rétt ályktun að draga, en hvað þýðir hún? Er leiðarahöfundur virkilega búinn að draga lesendur á asnaeyrunum, til þess eins að reyna að með hæpnum og haldbærum rökum að renna stoðum undir þá sjálfhverju skoðun sína að hann sé kannski bara dálítið sniðugur gaur?

Svar: Já.

Og nei. Leiðarahöfundur er fyrst og fremst að reyna að hafa gaman og skrifa eitthvað skemmtilegt, þó efnistök kunni að vera með þynnra móti (þó ekki jafn þunn og ég var á sunnudaginn).

„Ertu að segja mér að ég hafi verið að lesa heilan leiðara um ekki neitt, nema þá kannski sjálfshól og mont?“ kunna einhverjir að spyrja sig. Við þá hef ég aðeins eitt að segja: Kærar þakkir fyrir lesturinn.

Greinin birtist fyrst sem leiðari í Skessuhorni 20. júní.