Að eiga ráð undir rifi hverju?

Arnaldur Máni Finnsson

#sjöfimmtudagar – annar pistill

Við erum fljót að umskapa sögu okkar, þegar það hentar. Það tekur ekki langan tíma að snúa öllu á haus, og láta til dæmis sem svo að það sé órjúfanlegur hluti af íslenskri þjóðarsál að sýna ekki fyrirhyggju heldur vaða bara í verkin. „Þetta reddast“ sé einhverskonar lífsmottó sem hafi dugað okkur og skapað velsæld og staðið undir búsetu í landinu árhundruðin. Sá sem trúi á mátt sinn og megin muni komast af. Þetta er auðvitað öfugsnúningur. Frumkvæði, áræðni í nauðum og sjálfsbjargarviðleitni eru ekki andstæður forsjálni, útsjónarsemi og meðvitundar um mörk sín og annarra. Það væri heldur vönuð tilvera að líta sem svo að forsjálni sé kúgun í frjálsri heimsmynd.

Þegar viðvaranir heyrast og okkur er bent á villur okkar vega í einhverjum málaflokki þá erum við oftast fljót til réttlætingar. Ábyrgð okkar sjálfra er oftast og almennt heldur takmörkuð þegar kemur að stóru málunum. Við erum svo fá að okkar innlegg skipti litlu, segjum við – um leið og okkur langar auðvitað að geta haft áhrif. Sumir eru stoltir af því „framlagi Íslendinga til umhverfismála á heimsvísu“ að álframleiðsla fari fram með minni umhverfisáhrifum en hún „hefði gert annarsstaðar í heiminum“. Við eigum ráð undir rifi hverju. Þegar loftlagsbreytingar eru til umræðu þá eru okkar mál að sumra mati, í svo góðu lagi „miðað við“ eitthvað annað. Við bendum á aðra. Það virkar. Og siðferðislega finnst okkur í lagi að verðleggja „árangur“ og selja öðrum, því okkur finnst við hafa rétt til að græða á öllu sem hefur verðgildi.

Græðgi okkar til endurskoðunar

Flestir telja skynsemina vera mælikvarða á réttmæti allra gjörða. Það er oft gagnlegt og varpar ljósi á sjálfsmynd samfélags okkar að þannig „vöxum við“ til hins góða. En skynsemin er sleip og smýgur. Skynsamlegar tilraunir mistakast oft og iðulega. Að einn selji öðrum réttinn til að menga er meiri vitleysa en að míga í skóinn. Það er skot. Það þýðir í raun ekkert að vera að horfa á heiminn í stóra samhenginu þegar maður ætlar sér að taka til í eigin tilfinningum og breytni. Það er ekkert mál að benda á græðgi nútímans og kalla fram innihaldslausa sektarkennd hjá hverjum og einum þannig. Það viðheldur aftur því hugarfari að nóg sé að gera lítið því þannig mætum við skyldum og valdboði oftast í skömm; rétt breytni virðist skilgreind af því hvað er sektað fyrir.

Skynsamleg breytni og réttmæti gjörða byggir oftar en ekki á efnahagslegum ávinningi, að því er virðist. Lífsgæði eru „keypt“ en verða ekki til af sjálfu sér. Og kannski er sjálfsagt að vera gráðugur í lífsgæði? Eða hver neitar hamingjunni?

Óhóf og ágirnd eru hugtök á meðal gamalla synda í feysknu registeri. Sjaldnast finnst okkur þessi orð eiga við um okkar hversdagslíf og dagsins gang. Nautnaseggir, syndaselir, stóreignafólk og kapítalsins misbrúkendur; kannski á þetta við um þá?

En um leið snúum við öllu á haus og kröfur lítilmagnanna um launabætur verða óhóflegar. Útlendingar girnast hlutar í sjálfsagðri velmegun okkar, sem eru í raun – þegar við förum í réttlætingargírinn – réttmæt uppskera erfiðisins. Stritsins í landinu.

Að fasta á dóma og sjálflægni

Þakklæti er áskorun og sístæð uppspretta endurmats á eigin viðhorfum. Þegar við getum ekki þakkað fyrir neitt þá festumst við fljótlega í því að dæma allt og alla, líka okkur sjálf. Sjálfsvorkunnin fylgir og fríar okkur ábyrgð. Bölmóðurinn byrgir sýn. Við þurfum ekki að draga úr okkar neyslu því aðrir eru að bæta í, hugsum við. Og viljum skilgreina okkur sem vanþróað ríki á alþjóðavísu, til að græða aðeins meira. Sagt er að sjálfsmyndin beyglist mest af því að miða bara við nærsamfélag sitt en heimsmyndin verði skökk af því að benda útí geim. Hvernig förum við bil beggja?

Það er líka sagt að ástundun þakklætis sé skynsamleg fyrir geðheilsuna. Kannski það sé kominn tími á þakklætishelgi – þó engin sérstök ástæða blasi við svona í svipinn.

Fyrsta skrefið eru auðveldast. Bara brosa að þessum pistli. Svo áfram veginn; dæma ekki of hart. Setja sig í annarra spor. Þakka jafnvel fyrir vindinn með opinn faðm?

 

Arnaldur Máni Finnsson.

Höf. er sóknarprestur á Staðastað

Fleiri aðsendar greinar