Að eiga erindi

Ólafur Adolfsson

Nú styttist í prófkjör okkar Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi og vonandi verður þátttaka í prófkjörinu góð því það er upptaktur að kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar í haust. Góð þátttaka í prófkjörinu og öflugur framboðslisti sendir skýr skilaboð til annarra flokka um styrk Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og gefur fyrirheit um góða uppskeru í komandi kosningum.

Hópurinn sem býður fram krafta sína til næstu fjögurra ára er í senn sterkur og fjölbreyttur en engum dylst að hjá okkur eru mjög öflugir kandídatar sem gera tilkall til oddvitasætisins.  Í þeirri baráttu er viðbúið að hart verði glímt og kastljósið verði að mestu á oddvitabaráttunni.  Hætta er á að aðrir frambjóðendur falli í skuggann og gefist lítið svigrúm til að kynna sig og sín áherslumál, verði jafnvel dregnir í dilka með oddvitunum. Í þeirri baráttu megum við ekki missa sjónar á því að velja okkur sigurstranglegt lið sem tryggir okkur gott veganesti inn í komandi kosningabaráttu.

Að því sögðu langar mig langar til að deila með ykkur kynnum mínum af frambjóðandanum Örvari Má Marteinssyni sem tekið hefur þeirri áskorun að gefa kost á sér í annað sæti listans.  Örvari Má kynntist ég í gegnum sameiginlega setu okkar í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins sem spannar nú rúmlega sex ára tímabil, en þar vakti hann strax athygli mína fyrir dugnað, skelegga framgöngu og gott innsæi í málefni landsbyggðarinnar, jafnvel niður í fjármál og fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga.

Þeir sem þekkja Örvar vita að hann brennur fyrir öllu sem við kemur útgerð og fiskvinnslu enda starfað sem sjómaður og við sjávarútveg frá blautu barnsbeini. Í dag er hann skipstjóri og rekur smábátaútgerð í Snæfellsbæ með myndarbrag ásamt konu sinni Hörpu Björnsdóttur.  Aðrir málaflokkar sem eru Örvari hugleiknir eru atvinnumál á breiðum grunni og því tengt rekstrarskilyrði sveitarfélaga, bætt heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni, alvarleg staða hjúkrunarheimila sem og samgöngumál svo helstu dæmi séu tekin.  Þetta eru allt málaflokkar sem skipta okkur kjósendur í Norðvesturkjördæmi miklu máli.

Örvar hefur í gegnum tíðina sinnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og er í dag varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Snæfellsbæ auk þess að vera formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna og sitja í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.  Örvar er maður sem liggur ekki á skoðunum sínum en er ávallt tilbúinn að hlusta og greiða götu góðra hugmynda. Hann er frambjóðandi sem ég vil tefla fram í okkar liði í næstu alþingiskosningum og því hvet ég þig lesandi góður til að kynna þér hvað Örvar Már Marteinsson hefur fram að færa fyrir kjördæmið okkar og til landsmálanna – þar fer að mínu mati frambjóðandi sem á skýrt erindi.

 

Ólafur Adolfsson, lyfsali

Fleiri aðsendar greinar