Að dæma bókamanninn af vörubílstjórakápunni

Geir Konráð Theódórsson

Fyrir löngu síðan var ég eitt sinn að húkka mér far frá Borgarnesi til Akureyrar. Á þessum tíma var ég námsmaður í Menntaskólanum á Akureyri og bjó þar á heimavistinni. Mér fannst mikið til mín koma eftir fyrstu annirnar þarna í þessari fornu menntastofnun. Eftir einn heimspekiáfanga var ég orðinn svo uppfullur af menntasnobbi að ég keypti mér frakka og trefil í von um að hafa alvöru gáfumannaútlit. Í frakkanum stóð ég við gömlu Hyrnuna og raulaði menntaskólasönginn á meðan ég fylgdist með líklegum aðilum til að gefa mér far alla leiðina norður. Það var svo að einn aðili benti á annan og á endanum hitti ég á vörubílstjóra sem var við það að leggja af stað. Hann var til í félagsskap og bauð mér að hoppa upp í bílinn. Karlinn var vinalegur en ég man að hann var alveg dæmigerður í því sem ég taldi vera vörubílstjóraútlit. Hann var í köflóttri skyrtu með nokkrum sinnepsblettum og með úfið hár, ögn skeggjaður og með ágætis bumbu. Þegar við leggjum af stað tókum við smá spjall um hverra manna ég væri, veðrið og þetta vanalega íslenska hjal, en svo dó spjallið út. Hann skrúfaði niður smá rifu á gluggann, dró upp Marlboro sígarettupakka en hikaði svo, spurði hvort mér væri ekki sama þó hann reykti pínu og ég auðvitað sagði að það væri allt í lagi. Eftir allan forvarnaráróðurinn í grunn- og menntaskóla fannst mér reykingar vera greinilegt merki um mannlöst og ég dró upp skólabók og ætlaði mér að nota ferðina til lesturs frekar en að reyna að spjalla meira við þennan annars ágæta reykingamann.

Ég las um tíma á meðan bílstjórinn reykti út um rúðuna og eftir ágætis þögn spyr bílstjórinn hvað ég sé nú annars að lesa þarna. Ég setti nefið ögn upp í loftið og svaraði með monti að ég væri að lesa Siðfræði Nikómakkosar eftir Aristóteles. Það kom hljóð á bílstjórann og svo smá hósti og að lokum þetta humm og jájájá sem Íslendingar eiga til með að segja. „Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af grísku heimspekingunum, Plató er svo sem ágætur og þessir grísku lögðu grunn að mörgu góðu – en ef þú vilt lesa góða gamla speki mæli ég með Hugleiðingunum eftir Markús Árelíus Antonínus Ágústus keisara Rómaveldis.“ Ég starði á bílstjórann og hann hélt áfram að tala. „Já, gamla spekin er svo sem ágæt en maður má ekki vera alveg bundinn af Evrópu. Til dæmis Bókin um veginn eftir Lao-Tse, hana ættu allir að lesa. Svo tekur heimspekin náttúrulega mikið stökk þegar við förum að nálgast okkur í tíma. Passaði þig samt á Nietzsche og Foucault, heillandi speki til að byrja með en gerir líklegast engum gott. Fyrir skýra og góða hugsun mæli ég með að ungir menn fari beint í að lesa Karl Popper.“

Ég varð alveg orðlaus. Hvernig gat það verið að þessi pattaralegi, reykjandi vörubílstjóri væri svona vel að sér í heimspeki. Hann hljómaði eins og hann vissi meira en sjálfur heimspekikennarinn í menntaskólanum. Upphófst mikið samtal og ég kemst að því að þessi maður er ekki bara búinn að fara í gegnum allar helstu heimspekibækur mannkynssögunnar, heldur virtist hann vera búinn að fara í gegnum allar bækur sem mér datt í hug. Við ræddum Króka-Refs sögu, Íslandsklukkuna og Greifann af Monte Cristo, og þegar kom að þessari frönsku bók kom bílstjórinn mér aftur á óvart. „Já, hún er svo sem ágætlega þýdd en ég frétti að margar franskar bækur væru betri á frummálinu þannig að ég gerði mitt besta og lærði frönsku – núna hef ég enn meira gaman af bókunum hans Alexandre Dumas, að ég tali nú ekki um Voltaire. Húmorinn hans er enn betri á frummálinu. Síðan þá hef ég reynt að læra fleiri tungumál til að njóta bóka betur, það hefur gengið nokkuð vel en árans rússneskan er pínu erfið.“

Eftir því sem leið á aksturinn fór þetta að skýrast. Vörubílstjórinn sagði mér að hann hefði algjöra óbeit á almennu útvarpsefni, honum þótti þetta mestmegnis vera innantómt blaður og leiðindar garg og glamur. Hann var giftur konu sem hafði aðgang að Blindrabókasafninu og einn daginn stakk hún upp á því að hann tæki með sér hljóðbók í bílinn. Áratugum síðar var hann enn að aka og hlusta á bækur. Fyrst voru það kassettur, svo geisladiskar og þegar ég var þarna með honum í bílnum var hann með svona Mp3 spilarar tengdan við bílagræjurnar. Hann var búinn með flest af því sem stóð til boða á Blindrabókasafninu og hafði því keypt sér einhverskonar tungumálakennslupakka á hljóðformi og æft sig fyrst á ensku og svo öðrum tungumálum á meðan hann keyrði um landið. Þegar hann var orðinn ágætlega fær í enskunni keypti hann sér aðgang að Audible hljóðbókasafninu í gegnum netið og gat þannig hlustað á endalaust af erlendum bókum í bland við það nýja sem datt inn á Blindrabókasafninu. Fyrst var hann með valkvíða yfir öllum þessum bókum en tók svo upp það ágæta ráð að lesa fyrst þær bækur sem staðist hafa 100 ár af gagnrýni, þá þarf ekkert að hafa áhyggjur af tískunni. Svo var hann með annað ráð ef hann átti erfitt með að klára einhverja fræðibók. Lausnin var að verðlauna sjálfan sig með því að brjóta 100 ára regluna og hlusta á stundum innantómar en samt skemmtilegar skáldsögur fyrir hverja fræðandi bók sem hann kláraði.

Ég varð bara að spyrja manninn; af hverju í ósköpunum var svona vel lesinn og klár maður að vinna við að keyra vörubíl? Hann hló og sagði að þetta væri draumavinnan hans. Hann hossaði sér glettilega í stólnum sínum og benti út um gluggann. Hann sagði að akkúrat hérna væri hann með þægilega skrifstofu og með betra útsýni en flestir bankastjórar – og á hverjum degi hefði hann frið til þess að hlusta á bók eða æfa nýtt tungumál.

Þetta var alveg svakalega góð ferð norður á Akureyri og þegar ég kvaddi þennan speking þjóðvegarins var ég búinn að fylla margar síður í stílabókinni minni með ráðleggingum um bækur, tungumálakennslu og kennslusíður á internetinu. Ég lærði meira á einni ferð með vörubílstjóranum en ég hafði gert á mörgum önnum með treflaklæddum kennurum. Þessi ferð lækkaði vel í mér rostann og menntasnobbið – og það var mér dýrmæt lexía að átta mig á því að alls ekki skal dæma bókina af kápunni, sama hve groddaraleg vörubílstjórakápan gæti verið við fyrstu sýn.

 

Geir Konráð Theódórsson