Að byggja við ónýt hús

Björg Ágústsdóttir

Þjóðvegur 54*, Snæfellsnesvegur, frá Hítará að og um Snæfellsnes er að stórum hluta ónýtur. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa ítrekað ályktað um bágborið ástand þjóðvegarins.

„Sig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál. Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds.“

Framangreind lýsing í ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 2020 er því miður enn í fullu gildi og hefur ástand þjóðveganna sjaldan verið eins slæmt og nú. Umferðartölur sýna þó margfalda aukningu um svæðið. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir vegfarendur, hvort sem það eru íbúar, gestir, atvinnubílstjórar eða aðrir.

Nærtækt dæmi er ástandið á Vestfjarðarvegi, Dölum og Reykhólasveit núna, þar sem heilu vegarkaflarnir hafa hreinlega gefið sig. Ef áfram heldur sem horfir þá mun það sama gerast á Snæfellsnesvegi á næstu árum.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar fóru árið 2023 um 1.330 millj. kr. í viðhald þjóðvega á Vestursvæði (sem eru bæði Vesturland og Vestfirðir). Líkindi eru fyrir sambærilegri fjárhæð í ár og sé horft til þróunar verðlags þýðir það raunlækkun fjárveitinga milli ára. Fjármagn þetta, til styrkinga og endurbóta, er talið standa undir einungis 7% af kostnaði við brýnustu verkefnin.

Samkvæmt samantekt SSV (september 2023) námu fjárveitingar til nýframkvæmda við stofnvegi á Vesturlandi sl. ellefu ár (2013-2023) um 4,2 milljörðum kr. Í meðförum Alþingis er nú samgönguáætlun áranna 2024-2038. Henni er skipt niður í þrjú fimm ára tímabil og eru um 700 milljónir kr. af 44,4 milljörðum kr. áætlaðar til framkvæmda á Vesturlandi á fyrsta tímabili, árin 2024-2028. Það telst vera 1,6% fjárveitinga til stofnvega á landsbyggðinni, en á Vesturlandi eru um 14% alls vegakerfis landsins í lengdarmetrum talið. Af einstökum landshlutum (utan höfuðborgarsvæðis) færi mest á Suðurland, eða 18,8 milljarðar kr., verði áætlunin samþykkt.

Fyrsta tímabil samgönguáætlunar er þegar hafið og liðnir tveir og hálfur mánuður, án þess að áætlunin hafi verið afgreidd og óvissu eytt um fjárveitingar. Það er kannski eins gott, því 700 milljónir króna á fimm árum er blaut tuska í andlit Vestlendinga. Sé horft til þjóðvegar 54, þá er fjárveiting í endurbyggingu 19,5 km vegarkafla frá Brúarhrauni að Dalsmynni áætluð á þriðja tímabili, eða eftir tíu ár!

Vissulega er uppsöfnuð framkvæmdaþörf mikil um allt land og nýjar vegaframkvæmdir víða þarfar. En jafn nauðsynlegt eða jafnvel brýnna er að sinna viðhaldi eldri vega þannig að sú fjárfesting haldi áfram að skila arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og öryggi vegfarenda sé tryggt. Eða hver byrjar á nýrri viðbyggingu við húsið sitt, meðan eldri hluti þess grotnar niður?

 

Björg Ágústsdóttir

Höf. er bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar

 

* þessi lýsing á einnig við að hluta um aðra þjóðvegi á Snæfellsnesi, eins og 56.