Að breyta fjalli

Georg Magnússon

Að breyta fjalli skrifaði Stefán Jónsson fréttamaður, alþingismaður og rithöfundur eitt sinn. Breytingin felst ekki í því að hlaða vörðu og hækka fjall eins og þeir gerðu fyrir austan, ó nei, því meirihluti sveitarstjórnar Borgarbyggðar er leynt og ljóst að varða þá leið að rýra lífsgæði, eyða byggð og búum í Norðurárdal og Þverárhlíð. Ásamt því að breyta ásýnd Borgarfjarðar um ókomna tíð.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar óskuðu 90 landeigendur, ábúendur og náttúrusinnar eftir því við öll framboðin að þau gæfu út yfirlýsingu um stefnu framboðanna til vindmyllumála þar sem þá þegar höfðu verið kynntar fyrirhugaðar vindmylluframkvæmdir í landi Hvamms í Norðurárdal og á Grjóthálsi í landi Hafþórsstaða í Norðurárdal og Sigmundarstaða í Þvérárhlíð.

Fyrir hönd Framsóknarflokksins, svaraði Guðveig Lind Eyglóardóttir sem nú er forseti sveitarstjórnar: „Stefna ríkisstjórnarinnar er sú að hægt verði að beysla vindorkuna líkt sem og aðra orku. Fyrir því er ég jákvæð enda mikilvægur þáttur í orkuskiptum og orkuöflun almennt. Hins vegar liggur ekki fyrir stefnumörkun um hvar slíkir vindorkugarðar eiga að rísa og hvar ekki. Þar sem stefnuna vantar er í dag um huglægt mat sveitarstjórnarfólks að ræða sem ekki er hægt að byggja á upplýsta ákvörðun. Öll umræða og þekking meðal sveitarfélaga er að mínu mati á núll punkti og nauðsynlegt að úr því verði bætt svo hægt sé að taka ákvarðanir byggðar á þekkingu um nýtingu vindorku í landinu. Það er því mitt mat að sveitarfélög geta ekki tekið ákvörðun um hvort þau mæli með slíku í aðalskipulagi, fyrr en ríkið mótar stefnuna og þekking sé til staðar. Ég held að það séu allir sammála um að það er einfaldlega ekki hægt að setja vindmyllugarða hvar sem er og mikilvægt að slík áform séu unnin vandlega og gerð í samráði við íbúa á hverju svæði ef til þess kemur. Kv. Guðveig.“ Svo mörg voru þau orð.

Nú er svo komið að meirihluti sveitarstjórnar Borgarbyggðar ætlar að keyra fram skipulagsbreytingu á Grjóthálsi í landi Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í þeim tilgangi að landeigendum verði gert kleyft að reisa 98 metra hátt mælingamastur á Grjóthálsi.

Þessi leið sem meirihlutinn er að fara er eingöngu gerð til þess að opna dyrnar að því að reisa vindmyllur á Grjóthálsi. Ég geri ekki greinarmun á kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum eða þeim sem sitja í nefndum fyrir hönd meirihluta Framsóknarflokksins. Meirihlutinn fullyrðir að fyrirhugað mælingamastur hafi ekkert að gera með fyrirhugaðar áætlanir um byggingu vindmyllugarða í Norðurárdal og á Grjóthálsi, þó svo að opinberar áætlanir séu um slíkt. Allur hræðsluáróður sem nú heyrist um sveitir, að fái landeigendur sínu ekki framgengt verði sveitarfélagið skaðabótaskylt þar sem nú þegar hafi verið fjárfest í mælingamastri. Slíkt er bull ef verstu gerð, einfaldlega vegna þess að fari einhver út í búð og versli og síðar kemur í ljós að ekki sé hægt eða leyfi fáist ekki til þess að nota hlutinn situr sá hinn sami uppi með tjónið.

Sveitastjórnarmeirihlutinn og einnig sá í minnihlutanum sem samþykkti skipulagsbreytinguna með þeim fyrirvara að sveitarfélagði myndi ekki þurfa að bera kostnað af því að taka niður mælingamastrið yrði það reist ættu frekar að huga að því tjóni sem sveitarfélagið er að kalla yfir sig, fari svo að skipulagsbreytingarnar gangi í gegn og þar með hvað uppsetning vindmyllugarða muni hafa í för með sér. Fasteignaverð mun falla og ljóst er að skaðabætur verða sóttar til sveitarfélagsins.

Það hefur vakið athygli mína í samtölum við fólk, ungt og gamalt, hversu illa upplýst það er um fyrirhuguð hryðjuverk sem núverandi sveitarstjórnarmeirihlutinn er að kalla yfir byggðina. Svörin eru; þetta sést ekkert frá mér og mér er því alveg sama. Við skulum athuga það að vindmyllur sem eru mun hærri en Hallgrímskirkjuturn, staðsettar á Grjóthálsi sjást meira og minna um allt héraðið.

Ég skora á íbúa Borgarbyggðar að hrista af sér slenið og kynna sér þær fyrirætlanir sem í gangi eru.

Það er merkileg tilviljun að á sama tíma og forseti sveitarsjórnar kynnir stórkostlega uppbyggingu í Brákarey skuli vera keyrt á skipulagsbreytingar og uppsetningu vindmyllugarða í Norðurárdal og á Grjóthálsi. Það er engu líkara en að bein tenging sé þar á milli.

 

Georg Magnússon

Norðtungu 3 í Þverárhlíð