
Að bera saman gúrkur og tómata
Guðveig Eyglóardóttir
Hvaðan eiga tekjur sveitarfélaga að koma til uppbyggingar innviða og niðurgreiðslu á þjónustu sem íbúar kalla eftir?
Tekjustofnar sveitarfélaga eru ekki margir og því er hver og einn grundvallarþáttur í rekstri sveitarsjóðs hvers sveitarfélags fyrir sig grundvallaður til að mæta væntingum og kröfum íbúa um viðhald, uppbyggingu innviða og þjónustu.
Síðustu ár hef ég oft rætt við sveitarstjórnarfólk af öllu landinu um sameiginlegar áskoranir og sérkenni hvers svæðis. Það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa að gera sitt besta fyrir sitt sveitarfélag með það að markmiði að mæta fjölbreyttum þörfum íbúa og fyrirtækja í samræmi við getu og fjárhag hvers sveitarfélags. Þau gjöld sem við íbúar greiðum í formi útsvars og fasteignagjalda teljast til tekjustofna sveitarfélagsins og fara beint í að sinna lögbundinni grunnþjónustu og uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum hvers samfélags. Það skal sérstaklega áréttað að tekjustofnum sveitarfélaga er ekki ráðstafað í kaup á hlutabréfum eða í áhættufjárfestingar heldur skila þeir sér beint til þess að reka sveitarfélagið.
Ómálefnalegur samanburður
Ár hvert þegar álagning fasteignagjalda er ljós kemur upp umræða þar sem sveitarfélög eru borin saman út frá ákveðnum fjárhagslegum forsendum. Af þessu höfum við ekki farið varhluta í Borgarbyggð líkt og annars staðar. Dæmi um slíkt var t.d. sett fram í grein í síðasta blaði Skessuhorns þar sem fasteignagjöld í Reykjavík voru borin saman við Borgarbyggð.
Það er að sjálfsögðu val höfunda hverju sinni á hvaða forsendum þeir kjósa að leggja fram slíkan samanburð en mikilvægt er að bera ekki saman gúrkur og tómata í slíkum málflutningi. Þegar Borgarbyggð og Reykjavík eru borin saman ætti öllum að vera ljóst að rekstur sveitarfélags með annars vegar um 130.000 íbúa og hins vegar 4.000 íbúa er ekki samanburðarhæfur. Víðfeðmu, fjölkjarna tiltölulega fámennu sveitarfélagi var í greininni stillt upp á móti höfuðborg landsins.
Rekstur fámennari sveitarfélaga er eðli málsins samkvæmt dýrari á hvern íbúa og ég tel óþarfa að fara í dýpri útskýringar á því. Það er eins og að ætla sér að bera saman að jöfnu rekstrarkostnað í eðlilegu heimilsbókhaldi á heimili í götu þar sem fimm manna fjölskylda býr í einu húsi og tíu manns í næsta húsi. Húsin eru misstór og með ólíka viðhaldsþörf og þá eru tekjur ekki sambærilegar. Það eina sem þessi tvö heimili eiga sameiginlegt er að þau þurfa bæði tekjur til að láta reksturinn ganga upp.
Eðlilegra væri við slíkar reiknikúnstir að gera samanburð á Borgarbyggð og öðrum sambærilegum sveitarfélögum. Fjölkjarna sveitarfélögum, með þéttbýli, sumarbústaðabyggð, landbúnaðarsvæði, ferðaþjónustu og samsvarandi íbúafjölda. Hér koma dæmi um sambærileg sveitarfélög og Borgarbyggð. Og ljóst er af þessum samanburði að Borgarbyggð er með lægsta hlutfall álagningar bæði á A-hluta (íbúðarhúsnæði) og C- hluta (atvinnuhúsnæði) í öllum tilfellum.
Sveitarfélög eru ólík að stærð og fjölda íbúa
Annar samanburður sem heyrist reglulega hjá okkur í Borgarbyggð er samanburður við Akraneskaupstað, en það er eins og að bera saman gúrkur og tómata. Borgarbyggð er tæpir 4926 km2 á meðan Akranes er 9 km2. Þá er íbúafjöldinn á Akranesi 8000 þús. á meðan helmingi færri búa í Borgarbyggð. Þegar þessi tvö sveitarfélög eru borin saman þá er mikilvægt að velta fyrir sér muninum á umfangi skipulagsmála og umhverfis- og landbúnaðarmála ásamt mismunandi skyldum þeim tengdum hjá sveitarfélögum sem eru jafn ólík að stærð og gerð.
Akraneskaupstaður samanstendur af einum myndarlegum bæjarkjarna á meðan Borgarbyggð er mjög víðfeðmt, fjölkjarna, dreifbýlt sveitarfélag þar sem íbúum er veitt grunnþjónusta á mjög stóru svæði. Þá er rekstur leik- og grunnskóla, slökkviliðs, félagsþjónustu, umfang skipulagsmála o.fl. í grunninn afar ólík.
Þá er einnig mikilvægt að taka inn í umræðuna um mismunandi gjaldskrár sveitarfélaga í sorpmálum að sá málaflokkur þarf að standa undir sér. Þ.e.a.s. gjöld þurfa að standa undir kostnaði. Þar spila inn áhrif eins og með hvaða hætti sveitarfélög haga flokkun og hvort að ný löggjöf um sorpmál hefur verið innleidd og um hve langan veg þarf að fara til að hirða sorp. Innleiðing þessarar löggjafar er sveitarfélögum ekki valfrjáls þrátt fyrir að þau eru komin mismunandi langt á veg með hana.
Þjónusta við íbúa sveitarfélaga um allt land er misjöfn og áherslur taka mið af ýmsum utanaðkomandi þáttum og samsetningu íbúa. Þegar t.a.m. leikskólagjöld eru borin saman á milli sveitarfélaga er einnig nauðsynlegt að skoða hvaða þjónustu er verið að bjóða uppá? Á hvaða aldri eru börn tekin inn og hve oft á hverju ári. Leikskóli sem tekur á móti 9-12 mánaða börnum líkt og við gerum hér í Borgarbyggð er dýrari í rekstri en sá sem tekur aðeins á móti börnum eftir 18 mánaða aldur. En sveitarfélög bera að meðaltali 70% af kostnaði við rekstur leikskóla.
Þá er Borgarbyggð víðfeðmt sveitarfélag sem rekur sundlaugar á þremur stöðum í sveitarfélaginu. Stöðvar slökkviliðsins eru á fjórum stöðum í sveitarfélaginu. Leikskólar eru samtals fimm og starfsstöðvar grunnskóla fjórar svo eitthvað sé nefnt.
Hvað er ásættanleg grunnþjónusta?
Sveitarfélögum ber skylda til að sinna ákveðinni lögbundinni grunnþjónustu. Sveitarfélögin í landinu eru umfram lögbundin verkefni öll að sinna ýmsum málefnum og verkefnum sem falla ekki undir lögbundnar skyldur með það að markmiði að mæta kröfum íbúa og styðja við gott samfélag. Út frá stærðarhagkvæmni og tekjum per íbúa er sveitarfélögum búin misjafn stakkur hvað þetta varðar. Það er ólíklegt að hugur íbúa standi almennt til þess að draga úr þjónustu og styrkjum til menningar-, íþrótta- og félagsstarfs eða draga úr opnun á sundlaugum og leikskólum svo eitthvað sé nefnt. Ef að sveitarfélög myndu taka út alla þá þjónustu sem ekki er lögbundin er hætt við að samfélagið yrði ekki eins blómlegt og aðlaðandi.
Íþróttamannvirki og skólahúsnæði 2023-2026
Borgarbyggð er sveitarfélag í sókn og við stefnum á að mæta óskum íbúa um uppbyggingu og góða þjónustu. Í desember 2022 var fjárhags- og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins samþykkt. Hér á eftir má líta á hluta af þeim áformum sem hafa verið sett á framkvæmdaáætlun.
- Bygging á fjölnota knatthúsi verði lokið árið 2025.
- Árið 2026 verði hönnun lokið við nýtt íþróttahús og verklegar framkvæmdir hefjast.
- Árið 2024 verði risin viðbygging við leikskólann Ugluklett í Borgarnesi
- Árið 2025 verði nýr grunnskóli risinn á Kleppjárnsreykjum.
- Árið 2023 verður farið í 60 milljónir framkvæmdir á strandstíg í Borgarnesi.
- Jafnframt er stefnt að stórátaki í gatnagerð og framboði lóða.
Sá málflutningur að sveitarstjórnarfólk halli sér aftur og seilist ávallt lengra í vasa fólks byggir að mati undirritaðrar á skorti á upplýsingum um verkefni og umfang á rekstri sveitarfélaga og þörf á uppbyggingu innviða. Undirrituð vonar því að með þessari grein sé með einhverjum hætti hægt að varpa ljósi á ástæður þess að sveitarfélög þurfa að gera áætlanir um tekjur til að geta sinnt þeirri þjónustu og uppbyggingu sem íbúar óska eftir til framtíðar.
Guðveig Eyglóardóttir
Höfundur er oddviti Framsóknar í Borgarbyggð og forseti sveitarstjórnar.