
Ábyrg fjármálastjórn
Sigurður Guðmundsson
Það er kosið til sveitarstjórnar næstkomandi laugardag. Þá er gott að líta til baka og skoða hvað hefur áunnist í Borgarbyggð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta í Borgarbyggð síðasta kjörtímabil og við teljum að styrk fjármálastjórn hafi skipt höfuðmáli í góðri rekstrarafkomu sveitarfélagsins. Á kjörtímabilinu sem er að líða var haldið áfram með verkefnið „Brúin til framtíðar.“ Verkefnið hefur skilað miklum árangri eins og sést á helstu tölum þegar rýnt er í ársreikng sveitarfélagsins. Handbært fé frá rekstri á kjörtímabilinu var 2 milljarðar og það gerði sveitarfélaginu mögulegt að fara í uppbyggingu innviða á tímabilinu og það var gert af krafti því fjárfest var fyrir 2,5 milljarða. Þessi góði árangur í stjórn fjármála ásamt árangri fyrri ára gerði það að verkum að skuldir jukust einungis um 130 milljónir á kjörtímabilinu.
Fjárhagsstaða og rekstur Borgarbyggðar er sterk og það skiptir máli hver heldur um stjórnartaumana í sveitarfélaginu og gerir það af ábyrgð. Við Sjálfstæðismenn óskum eftir stuðningi þínum kæri kjósandi til að halda áfram með ábyrga fjármálastjórn og uppbyggingu í Borgarbyggð.
Settu X við D á laugardaginn.
Sigurður Guðmundsson
Höf. skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð