Á hjaranum

Kristján Gauti Karlsson

„Ölduhæð er á bilinu 1,5 – 1,8 metrar,“ sagði skipstjórinn. „Það er bara með því besta sem gerist á þessum slóðum.“ Nú er ég ekki sjóveikur maður, en þegar siglt var fyrir Straumnes og báturinn skaust upp og niður eins og fluga í súpu sem borin er á borð af skjálfhentasta þjóni veraldar, þá hvarflaði sannarlega að mér að selja upp bæði lungu og lifur, þó ekki væri nema bara til að stytta mér stundirnar á siglingunni. Þegar stigið var á land í Hlöðuvík á Hornströndum, þar sem dvalið var næstu daga, þóttist ég svo vitaskuld ekki hafa fundið fyrir neinu, jafnvel þótt rjóminn hafi komið þeyttur í fernunum upp úr lest bátsins og eggin hrærð.

Tíminn er afstæður á Hornströndum, en hann er nú svo sem relatífur víðar hér í Vetrarbrautinni (þetta vita allir sem hafa séð Interstellar, sem er myndin þar sem Matthew McConaughey fer ekki úr að ofan). Þar er hvorki sími né rafmagn, ekkert internet. Bara gamla góða langbylgjan, takk fyrir pent. Útvarpstækið, eða radíóapparatið eins og maður fer ósjálfrátt að kalla það undir þessum kringumstæðum, gengur vitaskuld fyrir batteríum. Því voru gömlu góðu veðurskeytin það eina sem var hlustað á. Svo var slökkt. Skeytin eru einstaklega notaleg á að hlýða, róandi lestur eftir kvöldmatinn og eina tenging okkar við umheiminn þessa daga á Hornströndum. Að öðru leyti vorum við algerlega utan þjónustusvæðis.

Maður fer sjálfkrafa að fylgjast frekar náið með veðrinu í fríi sem þessu. Veðurguðirnir, að Ingó undanskildum, ráða því hvað er hægt að skoða hvern daginn. Þegar skýin lágu lágt yfir víkinni var farið í stuttar gönguferðir og einn daginn ákvað ég að gera bara ekki neitt. Það verk leysti ég einstaklega vel úr hendi. Eini heiðríki dagurinn var nýttur til að ganga frá Hlöðuvík á Hælavíkurbjarg og aftur til baka. Gangan var á að giska rúmir 20 km og tók allan daginn. En hún var þess virði. Áður en komið var að bjarginu hjó ég eftir því að vind andaði rólega á móti okkur. Þá fannst glögglega hvernig bjargið ilmaði af driti. Þegar komið var á bjargið sást yfir að Horni á þessum fallega degi. Sátum við dágóða stund á áfangastaðnum, tjilluðum í sólinni og fylgdumst með fuglunum í bjarginu. Ég lagðist á magann, skreið varlega í átt til hafs og gægðist fram af brúninni. Það er býsna hátt niður, ég get vottað fyrir það. Ég brann líka á eyrunum.

Það er auðvitað klisja að segjast njóta þess að vera svo langt frá amstri hversdagsins og raun ber vitni þarna norður á Hornströndum, utan síma- og netsambands, óravegu frá ysinu og þysinu og öllu því. En klisjur eru til vegna þess að í þeim felst sannleikur. Þetta er rosalega næs. Þarna er friðsælla en á nokkrum öðrum stað sem ég hef heimsótt. Þegar komið er fram á minn aldur (ég er þrítugur) fer maður að kunna að meta slíkt. Landslagið er óskaplega fallegt, jafnvel þó það hafi verið lagskýjað eða þoka megnið af ferðinni. Það er allt í lagi, skýjahulan sveipar landslagið dulúð en um leið hlýju, þar sem hún liggur eins og teppi yfir fjallstoppunum.

Ég naut hverrar stundar í þessari stuttu ferð á hjara veraldar. Mig langar að fara aftur á Hornstrandir ef Njörður, Ægir og Neptúnus lofa. Helst strax næsta sumar.

Greinin birtist sem leiðari í 30. tbl. Skessuhorns 22. júlí.

Fleiri aðsendar greinar