6000 ára ættarsaga Íslendinga og jólasveinninn í Níger

Geir Konráð Theódórsson

Það er svo gott að vera kominn heim til Íslands, en hugurinn minn leitar samt suður til Afríku. Sérstaklega vegna þeirrar skelfilegu árásar sem Isis liðar frá Malí gerðu í síðustu viku á herstöð í Níger sem er í um 200 km frá borginni Niamey þar sem ég og kærastan mín höfum okkar heimili. Í þessari fólskulegu árás féllu um 70 hermenn og fjölmargir aðrir særðust. Fyrir okkur sem ólumst upp í öruggum löndum er oft auðvelt að leiða svona fréttir hjá sér, hugsa í nokkrar sekúndur að þetta sé skelfilegt en halda svo bara áfram að borða matinn eða stressast yfir jólahreingerningunum. En núna get ég ekki hætt að hugsa um þetta, ég hugsa um alla vinalegu hermennina sem ég hef hitt þarna úti. Heimilið mitt í Niamey er stutt frá forsetahöllinni og á hverjum degi labba ég framhjá hermönnum sem eru að passa upp á svæðið. Í fyrstu starði ég bara á byssurnar þeirra og brynvörðu bílana en síðar fór ég að horfa á andlitin á þessum strákum. Þetta er bara strákar, þessir hermenn eru allir yngri en ég, þegar ég horfði framhjá vopnunum sá ég bara brosmilda unga stráka og menn sem voru að vinna vinnuna sína. Þeir veifa mér ávallt þegar ég á leið framhjá og stundum eru þeir til í að spjalla. Eftir því sem tíminn leið varð það bara hluti af deginum mínum að sjá þá brosa og heyra þá heilsa og kalla vinalega til mín „ça va?“ og brosandi svara ég með „ça va“ á móti, sem er siðurinn í frönsku mállýskunni sem notuð er í Níger. Í minni sýn eru þeir bara venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum, en því miður getur lífið verið erfitt og núna er það skelfilegt í þessum hluta heimsins.

En samt sem áður þá er svo margt gott í þessu landi sem ég reyni að hugsa um í staðinn fyrir árásina. Þrátt fyrir allt þá heldur lífið áfram og hugur minn leitar til vinalega fólksins þarna úti. Síðan ég kom heim hafa nefnilega vinir mínir í Níger verið að senda mér skilaboð um hin ýmsu spennandi verkefni sem ég ætti að skoða þegar ég fer aftur út í janúar, og margir vilja að ég deili góðum fréttum frá Níger til Íslands. Fatahönnuðurinn Issa stefnir á að kynna okkur fyrir afrískum litum fyrir íslenskar aðstæður, hann á fyrirtækið Batik sans frontières, sem ber nafn með réttu því það þýðir Batik (sem er tegund vaxlitaðs fataefnis) án landamæra. Síðan býður vísindamaðurinn Baissa Tanimoune okkur aftur í heimsókn til að sjá framfarirnar á Icrisat rannsóknarbýlinu og Belgísku samtökin í Níger munu svo reyna að sannfæra okkur um að menningarverkefnin þeirra séu meira en bara heimsins besti bjór og guðdómlegar vöfflur.

Ég verð bara að deila með ykkur mynd sem ljósmyndari Belgísku samtakanna sendi mér. Í Níger aðhyllast flestir íslamstrú og halda því ekkert sérlega mikið upp á jólin, en það er þó fólk, sérstaklega í höfuðborginni, sem er kristið og Belgarnir vildu því gera hátíðlegt með því að bjóða jólasveininn þeirra velkominn. Þeir kalla hann Sinterklaas og venjulega kemur hann á hestbaki til að heilsa upp á góðu börnin, en í Níger varð hann að finna sér ögn öðruvísi fararskjóta. Myndin segir meira en þúsund orð og ég verð að játa að ég er ögn svekktur að vera heima og missa af því að hitta þennan stórkostlega jólasvein.

En fyrst ég er núna heima á Íslandi þá vil ég gefa ykkur tækifæri á að hitta hálfgerðan jólasvein og heyra hans sögur. Ég hef nefnilega verið að vinna að leyniverkefni þarna úti í Níger. Sumarið 2018 fékk ég að búa í smá tíma í Leverett húsinu í Harvard háskólanum í Bandaríkjunum og fékk þar aðgang að hinu risastóra og heimsfræga Widener bókasafni. Þar var ég ráfandi um og fann fyrir tilviljun eldgamla bók um Ísland. Ég opnaði bókina frekar ógætilega og úr henni datt þessi samanbrotna síða sem innihélt vísbendingu á algjöran fjársjóð af upplýsingum um fornar ættir Íslendinga í gegnum Egilssögu. Síðan þá hef ég verið að skrifa verkið: „Frá Eden til Íslands – 6000 ára ættarsaga Íslendinga“, og ég vil endilega kynna þetta aðeins nánar fyrir ykkur heimafólki, fá gagnrýni en líka hafa þetta á léttu nótunum og segja smá sögur af lífinu í Níger í leiðinni.

Elsku Kjartan og Sirrý á Landnámssetrinu í Borgarnesi hafa boðið mér að vera með kynningu á Söguloftinu í vikunni. Ég mun vera þar með létta kynningu og spjall næsta fimmtudag 19. des. klukkan 20:00 og svo aftur föstudaginn 20. des. en þá klukkan 18:00. Það er frítt inn og öllum hjartanlega velkomið að koma. Ég hlakka til að hitta ykkur.

 

Geir Konráð Theódórsson

Fleiri aðsendar greinar