Skógarstrandarvegur með lífið að veði

Reynir Ingibjartsson frá Hraunholtum í Hnappadal.

Í Skessuhorni 6. okt. sl. er ítarleg umfjöllun um Skógarstrandarveg og ástand hans. Ferðaþjónustuaðilar og aðrir, vara mjög við að fara þennan veg þótt hann eigi að kallast stofnvegur. Uppbygging ferðaþjónustu og annars reksturs og áform um sameiningu sveitarfélaga stranda vegna ástands vegarins. Þessi lykilvegur í samtengingu Snæfellsness, Dala, Vestfjarða og Norðurlands er stöðugt hornreka. Samkvæmt áætlunum um vegagerð, gæti liðið meira en áratugur þar til búið væri að gera veginn að alvöru stofnvegi. Kalla má núverandi veg lífshættulegan og þar eiga sér stöðugt stað umferðarslys.

Sameining sveitarfélaga í biðstöðu

Ljóst er að meiri sameining sveitarfélaga á Snæfellsnesi og í Dölum þarf að eiga sér stað á næstunni vegna fámennis og reyndar við allan Breiðafjörð. Uppbyggður Skógarstrandarvegur myndi auðvelda mjög hugsanlega sameiningu Snæfellsness og Dala í eitt sveitarfélag. Reykhólahreppur kæmi þar líka til greina í sameiningunni. Sameining á Snæfellsnesi kæmi líka inn í myndina að viðbættum fyrrum Skógarstrandarhreppi og fyrrum Kolbeinsstaðahreppi. Kannski þarf að liggja fyrir skýr yfirlýsing um sameiningu til að ýta á eftir vegarbótum um Skógarströnd.

Keppikefli ferðaþjónustu

Augljóst er að ferðaþjónustufyrirtæki á öllu þessu svæði, hafa mjög hag af almennilegum vegi milli Snæfellsness og Dala. Þá má ekki gleyma náttúrufegurð og mörgum sögustöðum. Íslendingasögurnar koma mjög við sögu og fjallasýnin er tilkomumikil. Útsýni yfir Breiðafjarðareyjar er hvergi betra. Þá má ekki gleyma Heydalsveginum, sem aðeins er í rúmlega 200 metra hæð. Með uppbyggðum vegi yfir Laxárdalsheiði, verður til staðar vetrarleið þegar Holtavörðuheiði og Brattabrekka lokast. Eins verður til og lokar hringleið um allt Snæfellsnes með stofnvegi um Hnappadal og Heydal. Tvímælalaust einn glæsilegasti hringvegur á öllu landinu.

Ekki nóg að samþykkja

Það er að sjálfsögðu besta mál að sveitarfélög á Vesturlandi álykti um endurbætur á Skógarstrandarvegi. En meira þarf til í ljósi reynslunnar. Íbúarnir þurfa að láta til sín taka, að ekki sé talað um þá sem reka ferðaþjónustu. Ekki bara horfa á tærnar á sér. Einhverjir þurfa að taka alvöru frumkvæði.