22. mars – Dagur strompsins?

Jón Trausti Hervarsson

Í fimmtíu og fjögur ár stóð Sementverksmiðjustrompurinn stoltur og spjó reykjarmekki sínum út yfir Flóann daga og nætur. Hann varð strax kennileiti og veðurviti sem sást víða að, enda hæsta steinsteypta mannvirki Íslendinga lengi vel, áberandi tákn Sementverksmiðjunnar og Akraness.  Hæðin og reykurinn voru merki um þann stórhug sem bjó að baki þessari miklu framkvæmd sem var gífurlegt innlegg í atvinnulíf okkar bæjar sem einkum byggðist á fiskveiðum og vinnslu og iðnaði tengdum útvegi og hafði áhrif á hag og framkvæmdagleði allra landsmanna.

Enn er mér í fersku minni þegar vinnupallurinn, sem var klæddur segli og var áfastur skriðmótunum, fór að skríða upp fyrir húsin á Suðurgötunni haustið 1957. Hann hækkaði hægt í átt til himins þar til í desember að strompurinn gnæfði yfir allt nágrennið. Jólastjarna var sett upp á toppinn öllum til mikillar ánægju. Það var í eina skiptið sem jólastjarna Sementverksmiðjunnar skein af toppi strompsins mikla. Eftir það hefur þetta fallega jólaskraut verið sett upp á sílóin stóru ofan við bryggjuna.

Árið 2012 var framleiðslu sements hætt, reykurinn úr strompinum hvarf og fólk átti í vandræðum með að ná áttum og vindstyrk því nú var enginn reykurinn sem áður sýndi fólki af hvaða átt hann blés eða hve mörg vindstig strompurinn sýndi eftir því hvað reykinn lagði langt niður með honum.

Nokkrum árum síðar hófst niðurrif á stærstu byggingum verksmiðjunnar og þar kom að þann 22. mars 2019 var strompurinn felldur í tveimur sprengingum. Mikill fjöldi fólks á öllum aldri fylgdist með. Allt tókst vel og efsti hluti strompsins sem var heill eftir fallið var varðveittur og stendur nú á grunninum og fær vonandi að standa þar til framtíðar í skipulagi svæðisins. Vert er að rifja upp að bæjarbúum gafst kostur á að kjósa um hvort fella ætti strompinn eða láta hann standa. Mikill meirihluti var fylgandi að fella hann, þó einhverjir væru með hugmyndir um nýtingu. Nú getur stromptoppurinn þjónað sem minnismerki um sementframleiðsluna í fimmtíu og fjögur ár en hann getur líka þjónað sem tákn fyrir alla þá sem hætt hafa að reykja, eins og hann, og alla þá sem vilja hætta, líka þá sem weipa.

En væri ekki tilvalið að kenna daginn sem Strompurinn var sprengdur og síðasti reykjarbólsturinn liðaðist burt, við þetta minnismerki um stóriðju inni í miðjum bæ þar sem 180 manns störfuðu þegar mest var. Á hvaða hátt á svo að minnast þessarar starfsemi? Það er stóra spurningin. Látið nú hugann vinna og komið nú með skemmtilegar tillögur. En meðan fólk hugsar sig um þá gætu á Degi strompsins 22. mars ár hvert allir þeir sem hætt hafa að reykja og weipa keyrt eða gengið framhjá Strompinum og sagt: „Ég gat hætt eins og þú en án þess að láta sprengja mig.“

Gerum 22. mars að Degi strompsins!

Akranesi í mars 2020

Jón Trausti Hervarsson

Fleiri aðsendar greinar