183 þúsund krónur

Guðjón S Brjánsson

Undanfarnar tvær vikur hef ég farið um og hitt margt fólk á öllum aldri, dugmikið fólk, ýmist í starfi, á eftirlaunum eða einstaklinga með skerta starfsorku.

 

Svigrúm stjórnenda

Ég er stjórnandi á allstórri heilbrigðisstofnun og fylgist með lífi og viðgangi minna starfsmanna eftir föngum og ekki síst launakjörum. Mér hefur lengi verið ljóst að kjör almenns starfsfólks samkvæmt samningum eru ósanngjörn. Svigrúm sem stofnunum er búið til að bæta hér úr er nákvæmlega ekkert. Margar þeirra eru starfræktar með verulegu rekstrartapi um þessar mundir og eiga fullt í fangi með að tryggja nauðsynleg aðföng.

 

Viðmót samfélagsins

Ég hef í nokkrum tilvikum hitt einstaklinga sem reiða sig á almannatryggingar sér til framfærslu, bæði eldri og yngri. Það hefur verið sérstök raun að hlýða á ungt fólk greina frá kjörum sínum, að hafa til ráðstöfunar ríflega 180 þúsund krónur á mánuði, búa við leigukjör sem nema e.t.v. um 100 þúsund krónum, jafnvel með börn á heimili, lyfjakostnað, matarinnkaup og aðra lágmarks framfærslu.

 

Dökkur blettur

Ég get ekki annað en fyllst aðdáun en um leið orðið sorgmæddur yfir þeim úrræðum sem þessir einstaklingar þurfa að nota til að ná endum saman. Í mörgum tilvikum verður þrautalendingin aðstoð frá hjálparstofnunum sem hlaupa undir bagga. Með fullri virðingu fyrir góðu starfi mannúðarsamtaka, þá er það svartur blettur í velferðarsamfélagi, að hundruðum einstaklinga sé búið þetta hlutskipti. Það stríðir gegn stjórnmálastefnu jafnaðarmanna, og meðal þessa fólks taka jafnaðarmenn sér stöðu:

  • Með þeim sem standa höllustum fæti í samfélaginu.
  • Með þeim sem lægst hafa launin á almennum vinnumarkaði og eiga í miklum erfiðleikum að sjá sér farborða.
  • Með þeim sem lokið hafa starfsdegi og búa við óréttlátar skerðingar og tekjutengingar á eftirlaunum.
  • Með þeim sem búa við takmarkaða starfsorku og njóta ekki sanngirni til sómasamlegs lífs.

 

Sanngirni og réttlæti

Sýn jafnaðarmanna þarf að verða ofaná svo raunverulegar úrbætur fáist. Að þessum málefnum mun ég og meðframbjóðendur mínir einbeita sér og þessu viljum við jafnaðarmenn koma í framkvæmd. Það þarf að vinna hratt og sýna áræði til breytinga.

 

Guðjón S. Brjánsson.

Höf. skipar 1. sæti á lista Samfylkingar í NV kjördæmi.

 

Fleiri aðsendar greinar