1. september 2017 – Flaggað í hálfa stöng

Stefán Skafti Steinólfsson

Góðir lesendur! Ég birti aftur þessa töflu (sjá hér að neðan) yfir hlutfall landshlutanna í fiskveiðum og mannafla frá árinu 1986. Stuttu eftir að kvótinn var settur á og síga tók á ógæfuhliðina. Þann 1. september næstkomandi er stefnan að leggja fiskvinnslu í rúst á Akranesi í annað sinn. Bætist Skipaskagi á langan lista byggðarlaga þar sem er sviðin jörð eftir kvótakerfið. Hringinn í kringum landið búa menn við nagandi óvissu um að kvótinn hverfi í þorpunum, eða bíða eftir ölmusu í nafni byggðakvóta. Með lögum um stjórn fiskveiða kvótanum hafa mörg byggðalög farið mjög illa ef ekki lögð í eyði.

En, það er von! Með samstöðu getum við lagt þessa viðurstyggð af sem kvótakerfið er.  Þetta eru allt mannanna verk. Til hvers var barist í þorskastríðum ef lífsbjörgin safnast á æ færri hendur? Lífsgæði þessarar þjóðar og ekki síst Skagamanna voru grundvölluð á fiskveiðum og tækifærum til að bjarga sér. Búið er að rústa bátaflotanum og mun verða mikið menningarslys þegar fiskimið og sjávarmenning líður undir lok. Munum það að varasamt er fyrir Skagamenn að hafa öll eggin í sömu körfunni. Það er ekki hægt að stóla endalaust á að keyra fólk til vinnu, til Grundartanga og Reykjavíkur. Það fer ekki vel. Okkur vantar sárlega störf innanbæjar, ekki síst kvennastörf. Bæjarstjórn Akraness hefur ekki sent frá sér harðorða yfirlýsingu þó kvótakerfið hafa farið mjög illa með Akranes. Er ekki kominn tími til að láta heyra í sér?  Landsbyggðarþingmenn verða að fara að standa undir nafni og hætta að verja þetta kerfi. Varðmenn kvótakerfis leynast víða, því miður. Nú er nóg komið.  Legg til að flaggað verið í hálfa stöng á föstudaginn, en síðan verði blásið til sóknar.

 

Stefán Skafti Steinólfsson.

Höf. er andstæðingur heimskulegrar fiskveiðistjórnunar.