
Varað við svikapóstum í nafni dómsmálaráðuneytis og lögreglu
„Embætti ríkislögreglustjóra hafa borist tilkynningar um tölvupóst þar sem lögreglan og dómsmálaráðuneytið eru ranglega titluð sem sendandi og skilaboðin sögð varða dómsmál. Í tölvupóstinum er talað um dómsmál vegna netbrota og er nafn fyrrverandi ríkislögreglustjóra notað sem sendandi skilaboðanna í nafni ríkislögreglustjóra, lögreglu og dómsmálaráðuneytisins,“ segir í tilkynningu.
„Við vekjum athygli á því að skilaboðin eru hvorki frá dómsmálaráðuneytinu né ríkislögreglustjóra og vörum fólk við að svara tölvupóstinum og við því að ýta á hlekki og viðhengi sem geta fylgt svikapóstum sem þessum. Mikilvægt er að skoða öll skilaboð og allan póst með gagnrýnum augum, ekki smella á hlekki eða viðhengi sem eru grunsamleg og alls ekki gefa upp kortaupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar. Á heimasíðu CERT-IS, netöryggissveitar íslenskra stjórnvalda, er að finna gagnlega fræðslu um vefveiðar sem þessar,“ segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.