
Skýr réttur landeigenda að færa Hítará í fornan farveg
Jónatan Hróbjartsson lögmaður hefur skilað tveimur landeigendum í Hítardal og byggðarráði Borgarbyggðar minnisblaði um rétt landeigenda til að fella vatnsfall Hítarár í fornan farveg samkvæmt gildandi lögum. Forsaga málsins er sú að 7. júlí 2018 féll umfangsmikil skriða úr Fagraskógarfjalli vestan Hítarár sem breytti farvegi árinnar á rúmlega eins kílómetra kafla ofan við Kattafoss. Afleiðingarnar urðu þær að vatnafar árinnar breyttist verulega, þannig að nú er um tíu kílómetra kafli árinnar neðan skriðunnar nærri því þurr. Glataðist við það aðgengi göngufisks að 21,4 kílómetra kafla Hítarár, frá Tálma að Hítarvatni. Hafa landeigendur Hítarár, sem urðu fyrir tjóni sökum skriðufallsins, íhugað þann möguleika að færa ána í fyrri farveg þrátt fyrir þann tíma sem liðið hefur frá skriðufallinu. Hafði Veiðifélag Hítarár það verkefni um tíma að sækja um framkvæmdaleyfi til verksins en um síðir kom í ljós að ekki var lengur meirihluti innan veiðifélagsins um að ganga í verkið.