
Björgunarsveitir rukkaðar um kílómetragjald þótt þær séu undanþegnar
Nú eru greiðsluseðlar fyrir fyrsta gjaldatímabil kílómetragjalds farnir að berast eigendum ökutækja hér á landi. Meðal bíleigenda sem hafa fengið greiðsluseðla fyrir kílómetragjald af bílum fyrir janúar eru björgunarsveitir á Vesturlandi. Það brýtur hins vegar í bágu við nýju lögin, því þessi tæki eiga að vera undanskilin gjaldskyldu. Í fjórðu grein laga um kílómetragjald ökutækja segir orðrétt um ökutæki sem undanþegin eru gjaldskyldu kílómetragjalds: „Ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita, sem og viðurkenndra heildarsamtaka þeirra, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkomandi tæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita, með því að auðkenna þau í ökutækjaskrá sem björgunartæki eða sem ökutæki sem einungis eru ætluð fyrir starfsemi björgunarsveita. Með björgunarsveit er átt við félag sem fellur undir lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.“
Svo virðist sem Skattinum hafi í þessu ljósi legið mikið á að senda út reikninga. Í það minnsta bíður það Slysavarnafélagsins Landsbjargar og/eða björgunarsveita að koma á framfæri leiðréttingu og beiðni um niðurfærslu krafnanna.
