
Hæsta nýsköpunarstyrkinn; 4.500.000 krónur, hlaut Harmonía – Samhljómur tónlistarkennslu. Hlaut verkefnið 4,5 milljón króna í styrk. Á myndinni eru f.v. Jónína Erna Arnardóttir formaður stjórnar Uppbyggingarsjóðs, Jón Hilmar Kárason og Birgir Þórisson styrkþegar og Hrafnhildur Tryggvadóttir atvinnuráðgjafi. Ljósm. sþ
Úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands
Nýverið var við athöfn á Hótel Borgarnesi úthlutað styrkjum úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Sjóðurinn hefur þann tilgang að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Vesturlandi og er fjármagnaður af ríkinu í gegnum Sóknaráætlun Vesturlands. Sjóðurinn auglýsti eftir umsóknum í október síðastliðnum og bárust 94 umsóknir þar sem alls var sótt um styrki að fjárhæð 196 milljónir króna. Að þessu sinni var veittur 61 styrkur sem skiptist þannig að 14 styrkir voru til atvinnu- og nýsköpunarverkefna en 44 styrkir til menningarverkefna. Loks voru þrír stofn- og rekstrarstyrkir. Úthlutað var 54,3 milljónum króna.