
Stórhuga uppbygging bílasafns og afþreyingarmiðstöðvar
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur samþykkt að heimila landeiganda Fellsenda i Hvalfjarðarsveit að vinna að breytingu á aðalskipulagi svæðisins og landnotkun þess og gera honum þannig kleift að ráðast í mikla uppbyggingu á jörðinni. Jörðin, sem er 256,3 hektarar að stærð, liggur að norðanverðu Akrafjalli frá efstu brún og niður að Eiðisvatni. Breyting aðalskipulaginu felst í því að 21 hektari jarðarinnar verður skipulagður þannig að þar verði annars vegar verslun og þjónusta og hins vegar afþreyingar- og ferðamannasvæði. Eigendur jarðarinnar eru Gunnar Þór Gunnarsson og kona hans Inga Guðrún Gísladóttir á Fellsenda. Væntanleg uppbygging á jörðinni felst í byggingu fyrir bílasafn og í tengslum við safnið er stefnt að fjölbreyttri afþreyingu á svæðinu fyrir heimamenn og ferðamenn.