
Perlað af krafti á 40 ára afmæli Berglindar Rósu
Berglind Rósa Jósepsdóttir hefði fagnað 40 ára afmæli 28. janúar síðastliðinn hefði hún lifað, en hún dó í kjölfar baráttu við krabbamein árið 2019. Í tilefni að afmælinu buðu aðstandendur Berglindar, í samstarfi við Kraft og Krabbameinsfélag Snæfellsness, til notalegrar samverustundar í sal Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Þar var perlað af krafti nýjustu „Lífið er núna“ armböndin sem fóru svo í sölu. Mæting á viðburðinn var framar öllum vonum og kláraðist allt efni sem nota átti í framleiðsluna. Alls voru perluð rúmlega 219 armbönd og hefði verið hægt að perla mun fleiri ef efniviður hefði verið til staðar. Fjölskyldan hafði búist við rúmlega 100 manns en vel yfir 200 mættu og létu gott af sér leiða. Krabbameinsfélag Snæfellsness sá svo um að allir fengu eitthvað gott að borða og bauð upp á grillaðar pylsur og eitthvað gómsætt í eftirrétt.