
Vofa gjaldtöku í gömlu Hvalfjarðargöngin svífur yfir vötnum
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um stofnun innviðafélags; „sem heldur utan um fjármögnun og uppbyggingu tiltekinna samgöngumannvirkja,“ eins og segir í kynningu á frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda. Líkt og lesendur Skessuhorns muna var stofnun þessa félags kynnt þegar innviðaráðherra lagði fram drög að Samgönguáætlun 2026-2040 í byrjun desember. Fram kom í kynningu innviðaráherra á þeim tíma að innviðafélaginu yrði falin framkvæmd við gerð Ölfusárbrúar, Fljótagöng og Sundabraut. Þá kom fram að einn af tekjustofnun félagsins væri gjaldtaka af samgöngumannvirkum í eigu félagsins. Jafnframt kom fram að til þess að styrkja eiginfjárstöðu hins nýja félags gæti ríkissjóður afhent því eignarhald eldri samgöngumannvirkja og væri þar einkum horft til Hvalfjarðarganga, sem fjármögnuð voru að fullu með veggjöldum á sínum tíma. Daði Már Kristófersson efnahags- og fjármálaráðherra nefndi á fyrrgreindum kynningarfundi um samgönguáætlun að mögulegt væri að eiginfjárframlag ríkisins til félagsins fælist til dæmis í því að afhenda félaginu meðal annars Hvalfjarðargöng og Ölfusárbrú. Þannig væri hægt að skapa sterka fjárhagslega stöðu félagsins og auðvelda fjármögnun framkvæmda.