Lestarleikur með stórbolta er hér í gangi. Ljósmyndir: mm

Stjörnuleikar voru haldnir á Akranesi í dag

Starfsfólk frá Ungmennafélagi Íslands hefur undanfarnar vikur verið á ferðinni um landið til að kynna íþróttir fyrir alla. Í dag var röðin komin að Akranesi þar sem fram fóru svokallaðir Stjörnuleikar í samráði við Íþróttabandalag Akraness í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Í boði var skemmtilegur íþróttadagur fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri með sérþarfir sem og börn sem ekki hafa fundið sig í hefðbundnu íþróttastarfi. Þetta var því dagur fyrir leik, gleði og samveru og fyrir alla sem vildu prófa að fara í skemmtilega leiki og prófa nýjar íþróttagreinar. Öll fjölskyldan var velkomin í íþróttahúsið og voru margir sem nýttu sér tækifærið. Farið var í stórboltaleik, þrautir, krull, blak, badminton, klifur og körfubolta, svo dæmi séu tekin. Lukkudýrið Sóli var einnig mættur í höllina; tók þátt í leikjum og ræddi við börnin.