Stíflan áður en hún var fjarlægð. Ljósm. Fuglavernd.

Fjarlægðu gamla stíflu í Melsá í Ytri Hraundal

Open Rivers Programme, styrktarsjóður til að styðja við áætlanir um að fjarlægja manngerðar stíflur í árfarvegum, styrkti félagið Fuglavernd árið 2025 til að fjarlægja stíflu í ánni Melsá í Ytri-Hraundal. „Markmið okkar með þessari framkvæmd var að endurheimta vatnasvæði árinnar fyrir fugla og fiska, og gera sjóbirtingi kleift að ferðast upp hana. Samstarfsaðilar okkar voru Land og skógur, Hafrannsóknarstofnun og Breska fuglaverndarfélagið (RSPB). Stíflan var svo fjarlægð með öllu í desember á síðasta ári. Framkvæmdin gekk vel, tafðist aðeins vegna mikilla rigninga og þurfti að bíða eftir frosti svo þungar vinnuvélar kæmust alla leið á framkvæmdarsvæðið. Það kom svo á óvart hve fjarlægja þurfti mikið af steinsteypu sem kom í ljós undir torfgarðinum út frá stíflunni. Við réðum sérfræðinga frá skoska fyrirtækinu CBEC sem sérhæfa sig í náttúrumiðuðum lausnum í endurheimt árfarvega. Vatnsstreymi var mælt fyrir og eftir framkvæmd og passað var upp á að varna rofi í árbökkum eftir að stíflan var fjarlægð,“ segir í tilkynningu frá Fuglavernd.