
Þekkir þú rauðu ljósin?
Fræðsluerindi í boði Barnaheilla um kynferðisofbeldi gegn börnum
Barnaheill - Save the Children á Íslandi býður upp á opið fræðsluerindi um kynferðisofbeldi gegn börnum fimmtudaginn 29. janúar kl. 14:00 - 15:30. Fundurinn verður rafrænn og aðgangur er ókeypis. „Barnaheill býður upp á þessa fræðslu nú til að bregðast við þeim fjölda kynferðisbrotamála gegn börnum sem komið hafa upp undanfarið og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Fræðslufundurinn er fyrst og fremst hugsaður fyrir foreldra, forsjáraðila og fólk sem vinnur með eða í þágu barna,“ segir í tilkynningu.
Rætt verður um hversu mikilvægt er að vera vakandi fyrir rauðu ljósunum og með hvaða hætti má nálgast samtal við ung börn um málefnið. „Aukning í stafrænu kynferðisofbeldi verður ávörpuð, auk þess sem farið verður yfir æskileg viðbrögð ef börn segja frá kynferðisofbeldi og hvaða úrræði og aðstoð eru í boði. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum og foreldrar/forsjáraðilar ættu að hafa grunnþekkingu á kynferðisofbeldi til að geta komið auga á rauðu ljósin, gripið til réttra viðbragða, þekkt helstu úrræði og þá aðstoð sem er í boði.
Fyrirlesari er Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnisstýra ofbeldisvarna og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum. Hún hefur áratuga langa reynslu af jafnréttis-, kynheilbrigðis-, og kynferðisofbeldismálum tengdum börnum og ungmennum, bæði hvað varðar forvarnir og viðbrögð. Fræðslufundurinn er eins og fyrr segir opin öllum, en nauðsynlegt er að skrá sig (á vefsíðunni barnaheill.is)
Fræðslufundurinn verður ekki tekinn upp en hægt er að panta fræðsluerindi fyrir foreldra- eða starfsmannahópa. Barnaheill býður upp á fjölbreytta fræðslu og námskeið sem hægt er að aðlaga að þörfum hvers hóps, sjá nánar á barnaheill.is"