Joanna Sobol og Przemyslaw Oskar Dobrzycki eiga og reka Fagleg þrif. Ljósm. mm

Fagleg þrif er alhliða hreingerningafyrirtæki á Akranesi

Fyrirtækið Fagleg þrif hefur verið starfrækt á Akranesi frá 2021. Í lítilli frétt í Skessuhorni í október það ár var sagt frá því þegar Oskar Dobrzyski var nýbúinn að stofna fyrirtækið og var að þvo gluggana á ritstjórnarskrifstofu Skessuhorn. Eftir að fréttin birtist á miðlum Skessuhorns tók verkefnum mjög að fjölga, að hans sögn. Í upphafi var Oskar einkum í gluggaþvotti, en í dag er boðið upp á heildar þrif húseigna, íbúða, þrif fyrir húsfélög, fyrirtæki og þrif á nýbyggingum. „Við höfum verið að taka að okkur ýmiskonar verkefni, stór sem smá, m.a. venjuleg þrif í íbúðarhúsnæði, flutningsþrif, gluggaþvott og teppahreinsun fyrir einstaklinga, fyrirtæki og húsfélög. Þá höfum við lyftu til að komast upp í tíu hæða hús til gluggahreinsunar.“