
Nýsköpun og ný tengsl – kynningarfunur á Hvanneyri síðdegis
Síðdegis í dag munu KLAK – Icelandic Startups, Íslandsstofa, Tækniþróunarsjóður og Vísindagarðar HÍ halda opinn kynningarfund á Hvanneyri í samstarfi við Gleipni, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Þar verða í upphafi flutt fjögur korters erindi:
– KLAK kynnir sín verkefni en félagið heldur úti metnaðarfullri dagskrá árið um kring fyrir einstaklinga með hugmyndir og fyrirtæki í vexti, þátttakendum að kostnaðarlausu.
– Tækniþróunarsjóður kynnir styrki fyrir nýsköpunarverkefni – frá hugmynd að markaði.
– Íslandsstofa segir frá aðgangi að alþjóðamörkuðum, erlendum fjármögnunartækifærum og hvernig byggja má upp öflugt tengslanet fyrir vöxt fyrirtækja.
– Vísindagarðar HÍ kynna stuðningsumhverfi sitt, nýsköpunarsamfélagið Mýrina og uppbyggingu nýs djúptækniseturs.
Að loknum erindum gefst góður tími fyrir spurningar, samtal og tengslamyndun. Tækifæri til að ræða eigin verkefni, fá ráðgjöf og tengjast beint fulltrúum stofnananna. Viðburðurinn er opinn öllum og ókeypis en sérstaklega ætlaður þeim sem eru með nýsköpunar- eða viðskiptahugmynd, eru að stíga sín fyrstu skref eða vilja þróa verkefni sitt áfram og sækja á nýja markaði.
Viðburðurinn er hluti af hringferðinni „Nýsköpun & Ný Tengsl“ sem skapar vettvang fyrir samtal, miðlun upplýsinga og tengslamyndun milli frumkvöðla, fyrirtækja og lykilaðila í nýsköpunarumhverfinu.