Gefa út reglur um meðhöndlun þorramatar á blótum

Þorrinn gengur í garð á föstudaginn. Þorrablót hafa nú þegar verið haldin á nokkrum stöðum, en framundan er vertíðin þegar tugþúsundir Íslendinga setjast við veisluborð og leggja sér til munns mat sem framleiddur er eftir aldagamalli venju. Matvælastofnun hefur í ljósi atvika undanfarin ár, þar sem matareitrun hefur tengst þorrablótum, sent frá sér leiðbeinandi ráðleggingar til allra sem meðhöndla þennan mat. „Mikilvægt er að huga sérstaklega að atriðum er varða veisluhöld og framsetningu hlaðborða. Algengustu orsakir matarsjúkdóma eru rangt hitastig og skortur á hreinlæti, sem hafa orðið til þess að örverur hafa náð sér á strik í matvælum.“