Anna María og Ellen Alexandra stilltu sér upp saman á mynd fyrir leik. Ljósm. Blakdeild UMFG

48 ára aldursmunur á elsta og yngsta leikmanninum

Lið Grundarfjarðar í meistaraflokki kvenna í blaki lagði land undir fót um liðna helgi til að spila við lið Sindra frá Höfn í Hornafirði. Lagt var af stað á föstudaginn en leikurinn sjálfur var svo spilaður á laugardag. Lið Grundarfjarðar var þunnskipað og vantaði nokkra leikmenn. Af þeim sökum ferðaðist hin 12 ára gamla Ellen Alexandra Tómasdóttir með liðinu austur til að leysa stöðu frelsingja en sú staða spilar eingöngu í aftari línu liðsins og þegar liðið er að verjast.

Guðrún Jóna Jósepsdóttir móðir Ellenar spilar yfirleitt í þeirri stöðu en hún var færð yfir á kantinn í sóknarlínuna. Gestirnir frá Grundarfirði byrjuðu leikinn af krafti og unnu fyrstu tvær hrinurnar nokkuð örugglega 15-25 og 11-25 og komust þar með í 0-2 forystu. Heimakonur í Sindra náðu að svara fyrir sig í þriðju hrinu 25-23 og minnka muninn í 1-2 og voru líklegar til að jafna metin í fjórðu hrinu. Þær voru komnar í 19-14 forystu þegar gestirnir frá Grundarfirði skoruðu 11 stig í röð og kláruðu leikinn 19-25 og þar með 1-3 sigur.

Þetta var eðli málsins samkvæmt frumraun hinnar 12 ára gömlu Ellenar Alexöndru í meistaraflokki og stóð hún sig vel og leysti frelsingjastöðuna af yfirvegun. Ellen verður 13 ára í júlí en fyrirliði liðsins, Anna María Reynisdóttir verður 61 árs í maí næstkomandi og er því 48 ára aldursmunur á elsta og yngsta leikmanni liðsins.

Lið Grundarfjarðar fyrir leikinn á móti Sindra. Efri röð F.v. Mladen Svitlica þjálfari, Anna María Reynisdóttir fyrirliði, Auður Kjartansdóttir, Birgitta Rún Baldursdóttir og Katrín Sara Reyes. Neðri röð f.v: Guðrún Jóna Jósepsdóttir, Ellen Alexandra Tómasdóttir og Gréta Sigurðardóttir.