Endurtaka grenndarkynningu

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar 13. janúar sl. var ákveðið að endurtaka grenndarkynningu vegna umsóknar til skipulagsfulltrúa um að breyta húsnæði við Kirkjubraut 4-6 þannig að í hluta þess verði rekið gistiheimili, en í hluta verslunar- og skrifstofurými. Stefnt er að því að opna gistiheimili með allt að átta herbergjum í húsnæðinu og verður inngangur frá Suðurgötu. Áfram verður gengið inn í verslunar- og skrifstofurými frá Kirkjubraut. Grenndarkynning hafði verið send út með 29 bréfum. Eftir að athugasemdir höfðu borist kom í ljós að viðtakendum hafði ekki borist kynningarbréfin á þeim tíma sem grenndarkynningin stóð yfir, þ.e. frá 7. nóvember til 12. desember 2025. „Af þeim sökum er ekki hægt að tryggja að grenndarkynning hafi farið fram með fullnægjandi hætti og að hagsmunaaðilar hafi fengið tækifæri til að kynna sér málið og koma að athugasemdum. Af framangreindum ástæðum telst grenndarkynningin ekki hafa farið fram með lögmætum hætti. Grenndarkynning málsins verður því send lóðarhöfum og hagsmunaaðilum að nýju sem og auglýst innan Skipulagsgáttar,“ segir í bókun nefndarinnar.