
Andlát – Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson fyrrverandi bæjarstjóri, þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis er látinn áttræður að aldri. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi á laugardaginn.
Sturla fæddist í Ólafsvík 23. nóvember 1945, sonur Böðvars Bjarnasonar og eiginkonu hans Elínborgar Ágústsdóttur. Sturla lauk sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík, varð húsasmíðameistari og lauk BS-prófi í byggingatæknifræði frá Tækniskóla Íslands.
Sturla var sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri í Stykkishólmi árin 1974-1991 og síðan aftur bæjarfulltrúi og bæjarstjóri kjörtímabilið 2014-2018. Árin 1991-2003 var hann þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Vesturlandi en frá 2003-2009 sem þingmaður stækkaðs kjördæmis; Norðvesturkjördæmis. Áður en hann var kjörinn á þing tók hann nokkrum sinnum sæti á þingi sem varaþingmaður.
Sturla gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn; á vettvangi sveitarfélaga, Alþingis og á landsvísu. Hann var skipaður samgönguráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1999 og gegndi því embætti til ársins 2007. Hann var forseti Alþingis 2007-2009. Sturla var framkvæmdastjóri Þróunarfélags Snæfellinga árin 2011-2014 en lauk starfsferli sínum við opinbera stjórnsýslu með að gefa kost á sér sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóraefni H listans í Stykkishólmi í kosningum vorið 2014. Listinn hlaut afgerandi kosningu en eftir það kjörtímabil, árið 2018, lauk Sturla beinni þátttöku í stjórnmálum.
Horft um öxl
Frá því Skessuhorn kom fyrst út í ársbyrjun 1998 má segja að stjórnmálaferill Sturlu Böðvarssonar hafi verið samofinn efnistökum blaðsins, enda starfssvæðið það sama. Hann var þá þegar orðinn alþingismaður Vesturlandskjördæmis, en síðar Norðvesturkjördæmis, eftir kjördæmabreytinguna 2003. Stjórmálaþátttöku sinni lauk hann 2018 þar sem hún hófst 1974 sem bæjarstjóri í Stykkishólmi.
Að leiðarlokum heiðrar Skessuhorn minningu Sturlu með að grípa niður í viðtal sem hann gaf vorið 2018, þegar hann var að ljúka síðara tímabili sínu sem bæjarstjóri og hafði hætt þingmennsku. Aðspurður kvaðst hann líta mjög sáttur yfir feril sinn sem stjórnmálamaður:
„Auðvitað er það alltaf þannig í stjórnmálum að það skiptast á skin og skúrir. En ég er mjög sáttur við að hafa fengið tækifæri til að vinna að þeim málum sem ég hef unnið að og haft til þess umboð með afgerandi úrslitum í kosningum. Það var mikil áskorun fyrir ungan mann að takast á við bæjarstjórastarfið og hefja þannig feril sinn í stjórnmálum. En ég var svo heppinn að fá að vinna með einstaklega góðum hópi sem var kjörinn í hreppsnefndina í Stykkishólmi 1974, á ég þá bæði við meirihluta og minnihluta,“ sagði Sturla, en hann var aðeins 28 ára þegar hann var ráðinn í starf bæjarstjóra.
„Það voru miklar væntingar og þetta öfluga fólk sem tók við, mörg á svipuðum aldri og ég, tók mjög til hendinni. Það þurfti að ljúka lagningu vatnsveitu sem var risaverkefni fyrir Stykkishólmsbæ. Síðan tóku við stanslausar framkvæmdir við gatnagerð, endurnýjun lagna í bænum og umbætur á sviði umhverfismála. Ég var ofan í skurðum að mæla meira og minna fyrstu árin með störfum á bæjarskrifstofunni og fundarhöldum,“ segir Sturla léttur í bragði. „Því næst var byggt félagsheimili og hótel og síðan tók eitt við af öðru; miklar hafnarframkvæmdir, fjölbýlishúsabygging fyrir verkamannabústaði, dvalarheimili og síðan íþróttahúsið og skólabyggingin, kaup bæjarins á stórum hlut í Skipasmíðastöðinni Skipavík ásamt endurbótum á dráttarbrautinni sem var í eigu bæjarins, gerð íþróttavallar og samstarf við St.Fransickussystur við að stækka sjúkrahúsið og byggja heilsugæslustöð. Mikill uppgangur var í Hólminum og af mörgu var að taka og það fjölgaði íbúunum sem voru komnir á fjórtánda hundraðið,“ sagði hann.
Landsmálin annars eðlis
„Á vettvangi þingsins og síðar ráðuneytis var starf stjórnmálamannsins auðvitað allt annars eðlis,“ sagði Sturla og minntist starfa í fjárlaganefnd Alþingis fyrstu átta árin á þingi en þó einkum ráðherratíðar sinnar í samgönguráðuneytinu frá 1999 til 2007. „Það var tími sem ég hefði ekki viljað missa af. Við tókum mjög til hendinni á sviði ferðamála, fjarskiptamála og í uppbyggingu samgöngukerfisins á grundvelli nýrrar löggjafar um samræmda samgönguáætlun sem ég fékk samþykkta í þinginu. Það var feiknarlega mikið verkefni og í kjölfar þess voru settar af stað aðgerðir í umferðaröryggismálum og við uppbyggingu vegakerfisins. Þær skiluðu sér fljótlega í tvöföldun Reykjanesbrautar og Hellisheiðar að hluta, til dæmis,“ sagði Sturla. „Svo voru það auðvitað jarðgöngin. Ég fékk að sprengja nokkrum sinnum,“ bætti hann við léttur í bragði.
„Á mínum tíma í ráðuneytinu voru gerð göng um Almannaskarð, Fáskrúðsfjarðargöng og svo fékk ég að sprengja fyrstu sprenginguna í Héðinsfjarðargöngum. Síðan setti ég af stað inn í samgönguáætlun göngin til Bolungarvíkur. Lengi hafði legið fyrir að þau þyrftu að verða að veruleika en mér þykir ánægjulegt að þau hafi verið sett á dagskrá á minni tíð og fjármunir tryggðir til þeirra,“ segir Sturla. „Sömuleiðis er ég óskaplega stoltur af því að hafa staðið að uppbyggingu vegakerfisins á Snæfellsnesi. Á minni tíð í samönguráðuneytinu var lagður nýr vegur um Vatnaleið, vegurinn um Búlandshöfða endurbættur, settar af stað framkvæmdir við Útnesveg og Fróðárheiði og Kolgrafafjörður brúaður. Þetta hefur breytt Snæfellsnesi, til dæmis tel ég að Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefði aldrei orðið að veruleika nema fyrir bættar samgöngur á milli bæjanna,“ sagði hann. „Þingmannsferlinum lauk ég síðan sem forseti Alþingis, sem var sömuleiðis mjög ánægjulegt starf í alla staði,“ bætti hann við.
Sveitarstjórnarmál voru grunnurinn
Sturla kvaðst í viðtalinu 2018 ekki getað verið annað en sáttur að hafa fengið tækifæri til að vinna með góðu fólki að endurbótum og úrbótum í samfélaginu. „Þó margt sé ógert á þjóðin að vera þakklát sjálfri sér fyrir hversu hratt hefur í raun verið byggt upp á síðustu fjörutíu árum eða svo. Þar eru sveitarstjórnarmálin grunnurinn að öllu saman. Það er lykilatriði að unnið sé vel í hverri byggð, byggðirnar verða að vera sterkar,“ sagði hann og kvaðst horfa björtum augum til framtíðar.
Sturla hafði yndi af hestamennsku, stangveiði, tónlist og lestri fagurbókmennta. Hann hafði áhuga á sögu lands og þjóðar og einkum varðveislu byggingararfsins sem Stykkishólmur ber fagurt vitni. Í upphafi bæjarstjóratíðar hans var mörkuð sú stefna að varðveita gömlu húsin sem tvímælalaust eru sterkustu einkenni Stykkishólms í dag.
Eftirlifandi eiginkona Sturlu er Hallgerður Gunnarsdóttir lögfræðingur frá Hjarðarfelli. Eignuðust þau fimm börn; Gunnar, Elínborgu, Ásthildi, Böðvar og Sigríði Erlu. Barnabörnin eru tólf.
Að leiðarlokum þakkar Skessuhorn Sturlu Böðvarssyni fyrir fjölbreytt og góð samskipti alla tíð. Eiginkonu, börnum og fjölskyldu er vottuð samúð.