
Kórinn syngur undir stjórn Viðars Guðmundssonar við undirleik Kjartans Valdemarssonar. Ljósm. mm
Húsfyllir á skemmtun Söngbræðra í Þinghamri
Óhætt er að segja að karlakórinn Söngbræður njóti sífelldra vinsælda þótt kominn sé fast að fimmtugu. Ár eftir ár hefur kórinn fyllt þau félagsheimili sem leigð hafa verið undir sviða- og hrossakjötsveislu ásamt söngskemmtun í byrjun árs. Undanfarin ár hefur skemmtunin farið fram í Þinghamri á Varmalandi sem er stærsta félagsheimilið í héraðinu. Uppselt var á viðburðinn í gær, um 340 gestir, og tugir að auki á biðlista. Viðar Guðmundsson kórstjóri var kynnir en um undirleik sá Kjartan Valdemarsson.