Utanvegahlaupið Hafnarfjall Ultra fór fram í fyrsta skipti í sumar. Hér er hluti 150 hlaupara sem ræstir voru í þetta ofurhlaup frá körfuboltavellinum við Hjálmaklett í Borgarnesi. Ljósm. mm

Hlaup aldrei vinsælli á Íslandi

Hlaup á Íslandi hafa vaxið hratt á undanförnum árum og árið 2025 markaði tímamót í þátttöku í skipulögðum hlaupaviðburðum víðsvegar um landið. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu; Hlaupárið 2025, sem gefin er út af hlaupadagskra.is. Samkvæmt skýrslunni voru skráningar í skipulögð hlaup yfir 45 þúsund árið 2025. Það jafngildir 61% aukningu frá árinu 2023, þegar skráningar voru um 29 þúsund. Milli áranna 2024 og 2025 jókst þátttaka um 25,1%. Alls voru haldnir 141 hlaupatengdir viðburðir víðsvegar um landið, þar af 53 götuhlaup og 50 utanvegahlaup, auk skemmtiskokka, víðavangshlaupa og úthaldshlaupa. Hlaupaviðburðir fóru fram nánast allar helgar frá vori og fram á haust.