Vatn úr krana í Skógarnesi í Stafholtstungum síðastliðið sumar. Ljósm. aðsend

Íbúar krefjast þess að fundið verið hreint vatn til að selja þeim

Ónothæft neysluvatn í Grábrókarveitu tilefni íbúafundar

Fulltrúar íbúa og fyrirtækja á veitusvæði Veitna, sem kaupa neysluvatn úr Grábrókarveitu í Norðurárdal í Borgarfirði, boðuðu í gærkvöldi til fundar á Hótel Varmalandi. Fundarefnið var; „framtíð Grábrókarveitu, grugg í neysluvatni og horfur á úrbótum.“ Til fundarins mættu fjórir fulltrúar Veitna ohf. sem á og rekur Grábrókarveitu, en Valdimar Leó Friðriksson var fenginn til að vera óháður fundarstjóri. Á þriðja tug íbúa og fulltrúa fyrirtækja á veitusvæðinu mættu til fundarins enda liggur vandamálið mjög þungt á fólki.

Vatn í Grábrókarveitu er tekið úr borholu í hrauninu við Hreðavatn og hefur svo verið frá 2007. Upphaflega átti að nota vatnið á öllu veitusvæðinu til og með Borgarnesi, en fljótlega eftir að farið var að nota vatn úr veitunni þótti sýnt að það væri ónothæft til matvælaframleiðslu í Borgarnesi. Til að mæta þeirri áskorun voru virkjaðar borholur á Seleyri sem skaffa byggðinni í Borgarnesi nánast allt sitt neysluvatn, eða um 30 lítra á sekúndu. Það sem upp á vantar, eða 10-15% af vatnsþörfinni, er svo vatn úr téðri Grábrókarveitu. Notendur veitunnar allt frá Bifröst og niður undir Borgarnes hafa hins vegar ekki annað neysluvatn og krefjast þess nú að leitað verði að nýju og nothæfu vatnsbóli. Benda þeir á að gott neysluvatn sé að finna víða í nágrenni Grábrókarhrauns, meðal annars á Brekku og Hvassafelli í Norðurárdal.

Fara og krefjast endurgreiðslu

Meðal notenda vatnsins úr Grábrókarveitu eru orlofshúsabyggðirnar í Munaðarnesi og Svignaskarði, Hótel Varmaland og Hótel Stafholt. Fulltrúar þessara fyrirtækja lýstu á fundinum stórtjóni sem þeirra rekstur hefur orðið fyrir á síðustu árum vegna gruggskota þegar móbrúnt vatn kemur úr krönum. Það hefur leitt til þess að gestir á hótelum hafa orðið frá að hverfa og krafist endurgreiðslu. Gunnar Ásgeir Gunnarsson umsjónarmaður orlofshúsabyggðarinnar í Munaðarnesi sagði á fundinum að fimmti hver gestur í orlofshúsabyggðinni stytti helgardvöl sína þegar verst lætur og krefjist endurgreiðslu. Fólk sætti sig ekki við brúnt vatn í hreinlætistækjum eða heitum pottum. Auk þess sagði Gunnar að gríðarleg viðhaldsþörf væri á öllum hreinsibúnaði, segullokum og blöndunartækjum; kostnaður sem hlypi á milljónum króna á hverju ári. Fram kom á fundinum að íbúar og rekstraraðilar fyrirtækja segi slæmt ástand neysluvatns viðvarandi vandamál og langstærsta áskorunin sem þeir standa frammi fyrir í rekstri. Eru þeir einhuga um að Veitur geti ekki lengur dregið lappirnar með að bæta ástandið.

Svipmynd af fundinum sem Valdimar Leó Friðriksson stýrði. Þarna talar Gissur Þór Ágústsson rekstrarstjóri Veitna á Vesturlandi.

Tvennt til skoðunar

Á fundinn mættu eins og fyrr segir fjórir fulltrúar Veitna. Pétur Þór Ólafsson sem starfar á sjálfbærnisviði Veitna segir að fyrirtækið sé meðvitað um ástandið og gert hafi verið ýmislegt til að bæta gæði neysluvatnsins í veitunni, svo sem að bæta síur, geisla vatn, skola reglulega út úr lögnunum og fleira í þeim dúr. Sagði hann að á næstu mánuðum yrðu gerðar tilraunir með betri síur til að freista þess að hreinsa vatnið. Þá sagði hann jafnframt að til skoðunar væri að finna nýtt vatnstökusvæði. Það var mat fundarmanna að sú skoðun starfsmanna Veitna hefði tæpast verið umfangsmikil eða tímafrek þar sem m.a. væri ekki enn búið að ræða við eigendur Brekku í Norðurárdal um mögulega vatnstöku í landi þeirra. Íbúar vissu um mikið og gott neysluvatn þar, einungis kílómetra eða tveimur ofan við borholuna við Hreðavatn.

Gissur Þór Ágústsson sem verið hefur rekstrarstjóri Veitna á Vesturlandi frá því áður en Grábrókarveita var tekin í gagnið mætti einnig á fundinn. Hann sagði að starfsfólk Veitna gerði sér grein fyrir annmörkum á veitunni og lélegum gæðum vatnsins, enda hefði þetta verið viðvarandi ástand allt frá árinu 2007 þegar borað var í hraunið og veitan lögð. Verst sagði hann vatnsgæðin vera í kjölfar jarðskjálfta á Reykjanesi og þegar miklar leysingar fylli Hreðavatn. Þá hafi grugg mælst langt yfir þeim mörkum sem miðað er við til að uppfylla gæðastaðla. Sagðist Gissur búast við að meðan þetta vatnsból verði notað munu þessi vandamál halda áfram að koma upp. „Okkur þykir þetta mjög leiðinlegt,“ sagði Gissur Þór ítrekað.

Bjóðast til að finna vatn

Vilhjálmur Hjörleifsson íbúi á Varmalandi boðaði til fundarins. Hann segir að á þeim 18 árum sem Grábrókarveita hafi verið í rekstri, hafi grugg í neysluvatni frá henni verið viðvarandi vandamál og að nú væru íbúar búnir að fá sig fullsadda af ástandinu og ráðaleysi Veitna. Í lok fundarins var samþykkt samhljóða áskorun sem Vilhjálmur bar upp, þar sem segir að; fundurinn skorar á forráðamenn Veitna ohf. að ganga nú þegar í það verk að afhenda notendum Grábrókarveitu hreint vatn. Fundarmenn lýsa sig tilbúna til að hjálpa til við að finna nýjar vatnslindir sem gefa hreint vatn, í nágrenninu, svo komist verði hjá að nota borholur í Grábrókarhrauni.“

Ekki afdráttarlaus niðurstaða fundar

Niðurstaða fundarins á Varmalandi var ekki afgerandi og gestir fóru út í nóttina án fullvissu um að gengið yrði af krafti í að afla nú þegar Grábrókarveitu betra vatns. Starfsmenn Veitna segjast áfram leita logandi ljósi að hentugum búnaði til að sía vatnið, en íbúar trúa ekki að sá búnaður sé til. Það sé álíka vænlegt og að reyna að sía te til að fá hreint vatn úr því. Þrátt fyrir að átján ár séu nú liðin frá því Grábrókarveita var tekin í notkun hefur eigandi fyrirtækisins, Veitur, ekki viðurkennt að vatnstökustaðurinn hafi verið misheppnaður. Íbúar sem Skessuhorn ræddi við eftir fundinn sögðust ekki í vafa um að fyrst þegar nýtt neysluvatnsból verði virkjað, muni ástandið lagast. Haft var á orði eftir fundinn að farið væri að ganga á langlundargeð íbúa, en Borgfirðingar hafa vissulega það orð á sér að vera seinþreyttir til vandræða.