
Vel gekk að ráða niðurlögum elds í verksmiðju Elkem
Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað út laust fyrir klukkan 21 í gærkvöldi vegna elds í verksmiðju Elkem Ísland á Grundartanga. Að sögn Álfheiðar Ágústsdóttur forstjóra fyrirtækisins var unnið að viðhaldi ofns sem er í framleiðslustoppi. Við rafsuðu varð það óhapp að neisti hrökk í raflagnir og úr varð eldur. Vel gekk að ráða niðurlögum hans. Á meðan á slökkvistarfi stóð var slökkt á öllum framleiðsluofnum verksmiðjunnar í rúmlega eina klukkustund. Í morgun var slökkviliðið aftur kallað út að verksmiðjunni þar sem glóð leyndist. Vel gekk að slökkva þá glóð.