Leikskólinn Klettaborg í Borgarnesi. Við skólann er rúmgott útisvæði með leiktækjum. Til hægri eru gámaeiningarnar. Ljósmyndir: gj

Stækka Klettaborg og bæta aðstöðuna

Eins og vegfarendur um ofanverða Borgarbraut í Borgarnesi hafa tekið eftir var nýverið komið fyrir talsverðum fjölda gámaeininga á bílastæðinu við leikskólann Klettaborg, Borgarbraut 101. Aðspurð í samtali við Skessuhorn segir Margrét Halldóra Gísladóttir leikskólastjóri að verið sé að stækka leikskólann um eina deild, gera úr honum fjögurra deilda leikskóla í stað þriggja. Þá er einnig verið með þessum færanlegu gámaeiningum bætt aðstaða starfsfólks. „Við erum nú að fá betri aðstöðu fyrir starfsmenn; meðal annars undirbúningsrými sem ekki hefur verið til staðar, fáum funda- og teymisrými þar sem meðal annars skapast aðstaða til að eiga fundi með foreldrum. Þá er í þessari viðbót einnig verið að bæta skrifstofuaðstöðu fyrir stjórnendur leikskólans,“ segir Margrét.