
Hefja átak í bólusetningu drengja fæddir 2008-2010
Sóttvarnalæknir er að hefja átak um bólusetningu drengja hér á landi sem fæddir eru árin 2008-2010 og verður bólusetning þessara árganga gjaldfrjáls í vetur. Í tilkynningu kemur fram að sýnt hafi verið fram á að HPV bólusetning er mikilvæg leið til að fækka krabbameinstilfellum. „Bólusetning gegn HPV veirunni hófst hér á landi árið 2011, fyrst eingöngu hjá stúlkum, en hefur síðan verið útvíkkuð og fyrir tveimur árum var farið að bjóða slíka bólusetningu óháð kyni fyrir tiltekna aldurshópa. Síðastliðið sumar ákvað Alma D. Möller heilbrigðisráðherra að veita fjármagni til HPV bólusetningar fyrir óbólusetta drengi upp í 18 ára aldur. Átak fyrir árgang 2010 fór af stað hjá heilsugæslu síðastliðið haust og nú fer að koma að árgöngum sem komnir eru á næsta skólastig.“
Bóluefni gegn HPV beindust fyrst og fremst gegn leghálskrabbameini til að byrja með, enda er það langalgengast krabbameina sem tengjast HPV, en bóluefnin hafa sannað gildi sitt gegn HPV sýkingum óháð kyni. Krabbamein sem tengjast HPV sýkingum önnur en leghálskrabbamein eru sum algengari hjá körlum en konum, má þar nefna HPV tengd krabbamein í koki. Þess vegna hófust bólusetningar gegn HPV sýkingum óháð kyni hér fyrir um þremur árum.
Fyrirkomulag bólusetninga verður með þeim hætti að þjónusta heilsugæslunnar í framhaldsskólum og heilsugæslustöðvar landsins munu vinna saman að HPV bólusetningarátakinu og verður fyrirkomulag bólusetninganna kynnt á vef heilsugæslu í hverju umdæmi fyrir sig.