Félagarnir Ellert Gauti og Björn Óli taka við körunum. Ljósm. af

Vel fiskast í öll veiðarfæri í byrjun árs

Bátar frá Snæfellsbæ voru ekki lengi að koma sér á sjó eftir áramót enda vertíðin að byrja og fiskverð mjög gott um þessar mundir. Góður afli hefur verið í öll veiðarfæri og sjómenn ánægðir með fyrstu dagana og eru bjartsýnir á komandi vikur og mánuði. Línubáturinn Brynja SH kom að landi á sunnudag með sex tonn og var uppistaða aflans ýsa. Að sögn Heiðars Magnússonar skipstjóra eru þeir með áherslu á að veiða ýsu þessa dagana. Með Heiðari í þessum róðri voru sonur hans Ellert Gauti og Björn Óli Snorrason, en þeir réru með honum yfir helgina og notuðu skólafríið til þess að afla tekna. „Við fórum með 32 bala á sjó,“ sagði Heiðar og bætti því við að drengirnir hafi ekki slegið slöku við, eru hörkunaglar.