
Syrtir í álinn hjá ÍA og mannabreytingar í kjölfarið
Eftir þokkalega byrjun nýliða ÍA í Bónus-deild karla í körfuknattleik hefur heldur sigið á ógæfuhliðina hjá liðinu eftir því sem liðið hefur á veturinn. Liðið tapaði fjórða leik sínum í röð þegar það mætti Þór í Þorlákshöfn á laugardaginn. Í upphafsleik mótsins unnu Skagamenn Þór á Vesturgötunni. Fyrir leikinn nú á laugardaginn var búist við jafnri viðureign enda bæði liðin með sex stig að loknum ellefu umferðum í deildinni. Raunin varð hins vegar önnur því lið Þórs var mun sterkara nánast allan leikinn. Liðið leiddi eftir fyrsta leikhluta 26-20 og staðan í hálfleik var 58-41. Í síðari hálfleik jókst forskot heimamanna og leiknum lauk 105-75.