
Eldsneytisverð tók dýfu í gærkveldi – áfram ódýrast að tanka í Borgarnesi
Í kjölfar þess að Alþingi samþykkti fyrir jól ný lög um að taka upp kílómetragjald fyrir akstur bíla og annarra ökutækja nú um áramótin vakti eftirvæntingu hvort og þá með hvaða hætti olíufélögin skiluðu niðurfellingu eldsneytisgjalda og vörugjalda af bensíni ásamt olíugjaldi út í verðlagið. Í fyrstu atrennu virðast olíufélögin hafa staðist prófið, en FÍB, almenningur og fjölmiðlar munu áfram á næstu vikum og misserum fylgjast grannt með þróun eldsneytisverðs. Verð á olíu og bensíni lækkaði um í kringum 30% þegar nýtt ár gekk í garð. Orkan reið á vaðið með lækkun, en strax fyrir Áramótaskaupið í gærkveldi mátti sjá lækkun hjá félaginu. Hin olíufélögin fylgdu svo í kjölfarið um svipað leiti og flugeldaskothríðin stóð sem hæst.
Nú eftir hádegi í dag, nýársdag, mátti sjá á verðskrá olíufélaganna að þau hafa ákveðið að halda áfram að bjóða lægsta verðið á eldsneyti á Vesturlandi einungis í Borgarnesi. Til marks um það er nú á nýársdag til dæmis 16% dýrara að kaupa eldsneyti hjá Olís á Akranesi en hjá sama fyrirtæki í Borgarnesi. Nú bjóða Orkan, Atlantsolía og ÓB upp á lægsta verðið á bensíni, frá 183,10 til 183,30 krónur fyrir lítrann af bensíni. Dísellítrinn kostar nú 205,30 krónur hjá Orkunni í Borgarnesi og 205,40 krónur hjá Atlantsolíu. Hjá ÓB í Borgarnesi er lítrinn á 212,50 krónur.
Hæsta verð fyrir eldneyti á Vesturlandi er hjá N1 í Búðardal, Breiðabliki á Snæfellsnesi, Grundarfirði, Hellissandi, Ólafsvík og Reykholti. Almenningur er hvattur til að fylgjast grannt með verðlagningu eldsneytis, til dæmis inn á síðunni gsmbensin.is
