
Langstærsti söludagur flugelda runninn upp
Landsmenn geta glaðst því í kvöld spáir stilltu og fallegu veðri og því verða kjöraðstæður til að kveðja árið með flugeldum að loknu Skaupinu. Sala flugelda er einn af stærstu þáttum björgunarsveita landsins í fjáröflun fyrir starfsemi sína. Landsmenn vita það og eru því fúsir til að kaupa af björgunarsveitunum og styðja um leið lífsnauðsynlega starfsemi þeirra.
Blaðamaður Skessuhorns leit við í morgun á sölustað flugelda hjá Björgunarfélagi Akraness við Kalmansvelli 2. Þar taka menn daginn snemma og hefð fyrir því að bjóða upp á kjarngóðan morgunmat á gamlársdagsmorgun áður en fyrstu gestirnir fara að streyma í hús. Sem fyrr er gamlársdagur langstærsti söludagurinn, en gærdagurinn kom vel út og verður í öðru sæti. Birna Björnsdóttir segir að opið verði til klukkan 16 í dag og á hún von á mjög góðri sölu enda veðurspáin frábær og létt yfir fólki almennt, að hennar sögn. Aðspurð um "Rakettupakka 2", sem Landsbjörg þurfti að innkalla í gær vegna galla, sagði hún að björgunarfélagið hafi verið búið að selja fimmtán slíka pakka, en fólk væri byrjað að koma til að fá þeim skipt fyrir aðra og öruggari.
Hér á Vesturlandi er opið í dag á níu sölustöðum hjá eftirfarandi sveitum:
Akranes - Björgunarfélag Akraness Kalmansvellir 2
Borgarnes - Björgunarsveitinar Brák og Heiðar Fitjum 2
Hvanneyri - Björgunarsveitin Ok, Melabraut 4
Reykholt - Björgunarsveitin Ok, Þorsteinsbúð
Eyja- og Miklaholtshreppur - Björgunarsveitin Elliði í Dalsmynni
Snæfellsbær - Björgunarsveitin Lífsbjörg Hafnargötu 1 Rifi
Grundarfjörður - Björgunarsveitin Klakkur Sólvöllum 17a
Stykkishólmur - Björgunarsveitin Berserkir Nesvegi 1a
Búðardalur - Björgunarsveitin Ósk Vesturbraut 12
Meðfylgjandi myndir voru teknar eftir opnun á Kalmansvöllum 2 í morgun og leyfum við þeim að tala sínu máli.




