
Hópurinn eftir æfingu. Texti og myndir: AF
Knattspyrnusystur buðu snæfellskum stúlkum á æfingu
Það var fríður hópur snæfellskra stúlkna sem mætti í íþróttahúsið í Ólafsvík í gær á knattspyrnuæfingu sem systurnar Erika Rún og Sædís Heiðarsdætur stóðu fyrir. Þær hafa báðar náð langt í íþróttinni, en byrjuðu báðar feril sinn með Víkingi Ólafsvík. Eftir það lá leið þeirra systra á stærri mið. Erika fór frá Víkingi til Aftureldingar og síðan í Fram þar sem hún endaði sem fyrirliði en kveðst í samtali við Skessuhorn vera hálfnuð með að hætta í fótbolta og er nú flutt aftur heim til Ólafsvíkur. Sædís er orðinn atvinnumaður í knattspyrnu í Noregi og spilar með Vålerenga en með liðinu hefur hún bæði orðið bikar- og Noregsmeistari. Auk þess spilar hún með íslenska landsliðinu.