
Brennukóngurinn fýrar upp í brennunni fyrir tíu árum. Ljósm. úr safni/ Guðmundur Bjarki Halldórsson
Víðigrundarbrennan verður á sínum stað annað kvöld
Íbúar við Víðigrund á Akranesi hafa um áratugaskeið boðið samborgurnum sínum til áramótabrennu. Svo verður einnig í ár. Undirbúningur brennunnar er í mjög föstum skorðum ár hvert undir stjórn brennukóngsins Þráins Sigurðssonar. Fyrst af öllu kemur öldungaráð götunnar saman milli hátíðanna og skipuleggur vandlega undirbúning og helstu tímasetningar því með árunum hafa kröfur samfélagsins á hendur þeim er fyrir brennum standa aukist nokkuð. Einnig gætir öldungaráðið þess vandlega að árlegur áramótabragur hirðskáldsins Gísla Gíslasonar um íbúa götunnar sé innan velsæmismarka.