
Ýmsar leiðbeiningar vegna notkunar flugelda
Flugeldar eru órjúfanlegur hluti áramótanna hjá mörgum. Að jafnaði er skotið upp mörg hundruð tonnum um hver áramót. Megninu er skotið upp á tveimur klukkustundum og vill þá stundum verða handagangur í öskjunni. Á hverju ári verða slys af völdum flugelda í kringum áramót. Karlmenn á miðjum aldri, sem hafa haft áfengi um hönd, eru taldir í stærsta áhættuhópunum og þá er fikt ungmenna einnig töluvert. Flestir slasast í andliti, á fingrum eða höndum. Því er nauðsynlegt að hafa öryggisgleraugu og skinn- eða ullarhanska við meðhöndlun flugelda.
Flestir sem slasast fara ekki eftir leiðbeiningum. Að baki hverjum flugeldi búa prófanir sem eiga að tryggja að hann sé sem öruggastur. Þær eru ekki gerðar að ástæðulausu því flugeldar geta gefið frá sér allt að 1200°C hita. Allar leiðbeiningar um meðhöndlun taka mið af þessu. Það bíður því hættunni heim að fara ekki eftir leiðbeiningunum svo ekki sé talað um ef átt er við vörurnar og eiginleikum þeirra breytt.
Það sem mikilvægt er að hafa í huga er:
- Lesa leiðbeiningar og fara eftir þeim í hvívetna.
- Virða mörk um aldur notanda.
- Gæta að börnum.
- Áfengi og flugeldar eiga aldrei samleið.
- Gæta að dýrum.
- Nota öryggisgleraugu.
- Nota ullar- eða skinnhanska.
- Virða fjarlægðarmörk frá skotstað, a.m.k. 20 metra.
- Geyma vörurnar fjarri skotstað. Aldrei í vasa, ekki einu sinni eldfærin.
- Nota stöðugar undirstöður fyrir flugelda, standblys og skotkökur.
- Ef skotkaka er í kassa skal skera flipana kassans af áður en skotið er upp.
- Ekki halla sér yfir vöru þegar kveikt er í heldur tendra með útréttri hendi og víkja strax frá.
- Ef vara virkar ekki sem skyldi skal ekki eiga við hana heldur láta vera í nokkrar mínútur og hella síðan vatni yfir.