Þoka einkenndi veðrið í gær víða um vestanvert landið. Þessa dulúðugu mynd tók Gísli J Guðmundsson á Akranesi

Kólnandi en hægu veðri spáð á gamlárskvöld

Í dag er spáð vestan- og suðvestan 3-10 m/s en hæg breytileg átt syðra. Þokusúld eða lítilsháttar rigning með köflum vestantil, hiti 0 til 6 stig. Það léttir til á austanverðu landinu og hiti kringum frostmark þar. Bætir í vind norðanlands í kvöld. Vestlæg átt 8-15 m/sek á morgun og 13-20 m/sek um kvöldið, en yfirleitt mun hægari sunnan heiða. Áfram léttskýjað eystra, annars skýjað og sums staðar dálítil væta.

Á morgun þriðjudag verður vestan- og suðvestan átt, 5-13 m/s, en yfirleitt hægari sunnan heiða. Skýjað vestantil og sums staðar dálítil væta, hiti 1 til 6 stig. Bjart með köflum og svalara á austanverðu landinu. Hvessir seinnipartinn, vestan 10-18 m/sek um kvöldið.

Á gamlársdag breytist veðrið og kólnar miðað við undanfarna daga. Spáð er norðvestan 10-18 m/sek, hvassast við austurströndina, en lægir vestantil seinnipartinn. Dálítil él á Norðaustur- og Austurlandi, en styttir upp í öðrum landshlutum. Á nýársdag verður norðanátt og él, en þurrt sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 10 stig.