
Sítengd en aldrei aftengdari
Rætt við frú Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, um áhrif snjallsíma og samfélagsmiðla
Það er notalegt andrúmsloft á Bessastöðum, þegar blaðamann Skessuhorns ber að garði. Fallegt húsið tekur vel á móti þér og ekki síður húsráðandinn; frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands. Tilefni heimsóknarinnar er að ræða málefni sem forsetinn hefur látið sig miklu varða; sífellt meiri notkun snjallsíma og samfélagsmiðla, en óhætt er að segja að sú tækni liti líf okkar flestra. Halla hefur áhyggjur af því að þrátt fyrir ýmislegt jákvætt sem tæknin hefur fært okkur, hafi hún um leið rænt okkur mörgu mikilvægu.
„Tæknin er vissulega bara hluti af heiminum sem við búum nú í og hún færir okkur margt, færir okkur í rauninni heiminn í hönd, sem er stórkostlegt. Ég er ekki að gera lítið úr því hvað tæknin hefur fært okkur, en hún hefur um leið rænt okkur mörgu mikilvægu. Í rauninni höfum við aldrei verið sítengdari en núna en um leið aldrei aftengdari öllu sem skiptir okkur máli sem manneskjur, til þess að okkur líði vel. Það er allt frá því að eiga einhvers konar samband við okkur sjálf til þess að verja tíma með öðrum. Okkur er meðal annars lífsnauðsynlegt að leiðast, eiga stund þar sem við þurfum einhvern veginn aðeins að hvíla í okkur, án þess að flýja þær tilfinningar sem að við sitjum uppi með. Ég held að við séum búin að missa það samband og einnig sambandið við hvort annað,“ segir hún.
Halla talar um snjallsíma- og samfélagsmiðlaheim sem þann veruleika sem yngra fólk, sem þekkir vart eða ekki lífið fyrir tilkomu þessarar tækni, elst upp í. Við hin eldri, sem lifðum okkar daglega lífi fyrir þessa tæknibyltingu, erum innflytjendur í þessum heimi, segir hún.
Tengjum minna við náttúruna
„Snjallsímarnir hafa breytt lífi ungu kynslóðarinnar, þeirra sem ólust upp við þennan veruleika, ótrúlega mikið. Snjallsímarnir eru eins og inngrónir í lófana á okkur. Það er gjörólíkt veruleika okkar sem erum eldri. Ég var í sveit á sumrin og lék mér mikið úti. Það var líka setið lengi við matarborðið og talað saman og það voru sjónvarpslausir fimmtudagar og júlímánuðir. Þetta er veruleiki sem er svo ólíkur því sem mín börn og enn yngra fólk þekkir.“
Halla segir samt að við hin eldri séum ekkert endilega skárri, þegar kemur að notkun snjallsíma og samfélagsmiðla. Það er kannski til marks um það að blaðamaður Skessuhorns gætti þess að stilla snjallsíma sinn á flugvélastillingu áður en viðtalið hófst, því annars hefðu ótal tilkynningar í símanum truflað.
„Við erum ekkert endilega betri en börnin,“ bætir Halla við. „Við sitjum þögul hlið við hlið þegar við erum saman úti að borða eða við matarborðið, tölum jafnvel saman við þær kringumstæður í gegnum tækin. Við förum líka sjaldnar út, held ég, fáum minni sól í augun, sem er okkur lífsnauðsynleg, ekki bara andlega heldur líka líkamlega. Við tengjum hugsanlega minna við náttúruna en áður, sem er að ég held grunnurinn að því hver við erum sem manneskjur; við erum náttúran og náttúran er við. En þegar þú ferð aldrei út, þegar þú ert svona sjaldan í samtali við náttúruna, þá held ég að þú missir af miklu.“
Tengsl við tilgang
Forseti hefur ekki síður áhyggjur af því að síaukin snjallsíma- og samfélagsmiðlanotkun skerði tengsl okkar við tilgang.
„Ég held að við séum að upplifa svo mikið tóm í þessu tilgangslausa skruni, þar sem líf annarra virðist svo stórfenglegt að okkar eigið bliknar í samanburði. Athyglin og viðurkenningin kemur svo mikið í gegnum samfélagsmiðla að stundum er afleiðingin sjálfshatur eða vanvirðing. Þannig held ég að við séum minna tengd en nokkru sinni við flest það sem við þyrftum að vera tengd við eftir að við urðum svona tölvu- og tæknivædd. Og ég held að við séum meira einmana en við höfum nokkru sinni áður verið. Þá á ég bæði við ungt fólk og eldra fólk og jafnvel okkur sem erum á miðjum aldri.“
„Ég hef sérstakar áhyggjur af þessari þróun gagnvart börnunum vegna þess að þegar að þau fá heiminn í hönd hafa þau samstundis aðgang að fjárhættuspilum, klámefni, óraunverulegum ímyndum annars fólks og upplognum fréttum. Við myndum aldrei setja spilakassa inn á leikskóla, en við sjáum leikskólabörn með síma sem í eru leikir og tæki sem eru hönnuð eins og spilakassar, með hvötum sem fá þau til að halda notkuninni alltaf áfram. Við myndum ekki mæta í grunnskólann og skella VHS-spólu í tækið með klámmynd og leyfa öllum að horfa á. En á slíkt efni eru ungir krakkar að horfa í frímínútum í skólum landsins.“
Stærsta lýðheilsuógnin
Við eldra fólkið teljum stundum að internetið, svo notað sé mjög miðaldra hugtak, og samfélagsmiðlar merki það sama fyrir alla. Við erum á samfélagsmiðlum og þekkjum þá og teljum okkur því vita hvað bíður barnanna okkar þegar þau koma þangað inn. Staðreyndin er hins vegar sú að sá algóriþmi sem forgangsraðar efninu fyrir börnin er allt annar en sá sem við hin fullorðnu búum við. Þau eru í raun á allt öðru interneti en við, svo haldið sé í miðaldra hugtakanotkunina.
Þetta hefur Halla orðið rækilega vör við í samræðum við börn og ungmenni, en hún hefur heimsótt ófáa skóla og rætt þessi mál við krakkana.
„Þau hafa verið að segja mér sögur í allan vetur um ýmislegt sem þau sjá og ég er stundum bara í léttu áfalli eftir þau samtöl. Þau hafa séð barsmíðar í beinni og sjálfsskaða, vægast sagt hræðilega hluti, og þau verða sjálf fyrir einelti og ofbeldi. Og þetta efni dreifist svo hratt. Við, sem ólumst ekki upp við þetta, áttum okkur kannski ekki á því að þau búa í öðrum stafrænum veruleika en við. Við höfum ekki hugmynd um þennan heim sem þau eyða allt að níu klukkutímum á dag í. Hér byggi ég á tölum frá Jonathan Haidt sem er höfundur Kvíðakynslóðarinnar. Þetta skjáskroll tekur allt að hálfa vinnuviku hjá börnum á aldrinum 13 til 16 ára samkvæmt hans rannsóknum í Vesturheimi.
Hvernig eiga börnin að geta einbeitt sér, verið til staðar, skapað heilbrigð félagsleg tengsl eða hreyft sig nóg? Þetta er ein stærsta ógn við lýðheilsu og samfélagsheilsu og lýðræðisþróun sem að við höfum staðið frammi fyrir á seinni tímum.“

Krakkarnir vilja mörk
Fjöldi rannsókna sýnir fram á það gagn sem snjallsímar geta gert, en á sama tíma sýnir fjöldi rannsókna einnig fram á skaðann. Við stöndum þannig frammi fyrir tækni sem felur í sér bæði gagn og skaða; kannski smættaða mynd af heiminum öllum, sjálfu lífinu, þar sem gott og illt verður á vegi okkar. En hvað er til ráða?
„Ég er ekki endilega að tala fyrir boðum og bönnum. Ég er ekki sannfærð um að þau séu svarið, að minnsta kosti ekki eina svarið. En ég held við þurfum að mynda einhver skjólbelti fyrir börnin okkar, unga fólkið okkar og jafnvel fyrir okkur sjálf. Ég fer oft í heimsóknir í skóla og fæ margt ungt fólk til mín og ég spyr eiginlega alltaf sömu spurningar. Ég spyr þau: „Hafa snjallsímar og samfélagsmiðlar haft neikvæð áhrif á ykkar líðan?“ Svo bið ég þau um að rétta upp hönd og þau rétta svo að segja öll upp hönd, það er sjaldan undantekning.
Í kjölfarið spyr ég gjarnan: „Viljið þið að við, sem erum fullorðin, gerum eitthvað í þessu?“ Þá réttir afgerandi meirihluti aftur upp höndina. En þegar ég spyr: „Hvað?“ þá fer þetta að verða flókið. Þau eru ekkert endilega öll sammála því að við eigum að vera með símabann í skólum en þau eru, held ég, meira og minna öll sammála um að við þurfum að stefna í átt til einhvers konar símafriðar, mynda eitthvert skjól þar sem sími og snjalltæki eru ekki þungamiðjan.
Ég bið þau gjarnan um að koma með hugmyndir. Börnin í þeim skólum sem hafa tekið upp símafrí eru oftast mjög ánægð. Ég hef sótt heim skóla sem hafa verið símalausir í sjö ár eða meira og andrúmloftið þar er allt öðruvísi heldur en í skólum sem eru ekki með nein mörk. Ég hef líka komið í skóla sem eru með einhverja blöndu af þessu tvennu. Þau segja kannski að það megi ekki vera með síma í tímum en það megi vera með þá í frímínútum. Mér sýnist það samt vera svolítið flókið að vera með einhverja svona blöndu. Ég hitti hins vegar aldrei krakka sem eru alfarið á móti því að við setjum einhver mörk í kringum notkun snjalltækja.
Þau tala líka mjög mörg um að við sem erum fullorðin þurfum að vera þeim betri fyrirmyndir, standa okkur betur sjálf. Börn og unglingar njóta þess almennt að eiga samtöl við aðra og verja gæðatíma með foreldrunum sínum. Þau vilja til dæmis velflest símalausar máltíðir og langar til að við spilum oftar á spil.“
Neyðarástand
Forseti hefur af þessu persónulega reynslu, því að hún og dóttir hennar ákváðu í upphafi árs að setja sér mörk varðandi samfélagsmiðla- og símanotkun, reisa skjólbelti í kringum sig, eins og Halla orðar það. Það skilaði sér m.a. í því að dóttirin, sem aldrei var mikill lestrarhestur, hefur lesið yfir hundrað bækur það sem af er þessu ári.
„Við eigum að gefa börnunum okkar meira frelsi til að gera mistök, svigrúm til að leika sér og vera úti og tengjast hvert öðru með áþreifanlegum hætti. Það sýnir sig að þegar ýtt er undir þessa þætti eykst líkamleg og andleg vellíðan. Ég held að það sé þó ýmislegt flókið hvað þetta varðar,“ segir Halla og hugsar sig um áður en hún heldur áfram.
„Við höldum kannski að þetta skjáskroll, þar sem við erum endalaust að strjúka með fingrum yfir símaskjáinn, sé eitthvert aukamál í samfélaginu, en svo er ekki, því að það sem veldur okkur sem einstaklingum vanlíðan, byrjar smám saman að valda okkur sem samfélagi skaða. Við erum byrjuð einhvern veginn að tala við hvort annað og um hvort annað með fingrunum, í gegnum skjáina, í gegnum samfélagsmiðlana með ýmsum hætti sem að við myndum ekki leyfa okkur í návist hvert annars. Líf okkar sem strokufanga, svo ég noti orð sem ég heyrði nýlega, er farið að hafa áhrif á samfélagslega heilsu. Um er að ræða þróun sem er jafnvel farin að draga úr getu okkar til að þekkja rétt frá röngu, og vega að lýðræðinu okkar.“
Tæknin hefur áhrif á okkur öll, á allt samfélagið. Mismunandi reglur í skólum skapa mismun og geta jafnvel valdið togstreitu. Barn sem býr við ströng boð og bönn í samfélagsmiðla- og símanotkun af hálfu foreldra, getur einangrast ef öll hin börnin í kringum það lifa stórum hluta síns lífs á samfélagsmiðlum, segir Halla.
„Ég held að þetta viðfangsefni kalli á samfélagslegt átak. Það eru ekki bara skólarnir sem þurfa að taka þátt í því, heldur fjölskyldur, við sem fullorðin erum, vinnustaðir, vinahópar. Ef við náum tökum á þessu, berum gæfu til að rækta skjólbelti utan um ungviðið, þá gætum við, bætt um leið okkar andlegu líðan og þá held ég að samfélagslega heilsan skáni líka. Þannig eigum við möguleika á að búa áfram í samhentu, skapandi og friðsamlegu samfélagi en það hefur alltaf verið einn helsti styrkleiki okkar Íslendinga.“
Hönnuð heimsmynd
Blaðamaður veltir því upp að samfélagsmiðlar búi til bergmálshella utan um okkur og líkt þenkjandi fólk. Þannig sjáum við mun fremur skoðanir sem ríma við okkar eigin en þær sem gera það ekki. Þegar við bætist meiri skautun í samfélaginu og umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra minnkar, efumst við æ sjaldnar um eigin skoðanir og leitum minna eftir nýrri þekkingu í ranni þeirra sem aðrar skoðanir hafa. Búum í okkar bergmálshelli og gagnrýnum út um hellisopið.
Halla rifjar upp samtal sem hún átti fyrir löngu við forvera sinn á forsetastóli, frú Vigdísi Finnbogadóttur. Vigdís minnti á að orðið heimskur var í fyrstu notað fyrir þau sem ekki höfðu farið að heiman. Slíkt fólk hafði þröngt sjónarhorn á lífið og þekkti ekkert utan síns nánasta umhverfis.
„Það er ákveðin heimska að búa í þröngum bergmálshelli, hún þrífst þar. Ef þú hefur mjög þröngt sjónarhorn á heiminn, þá geturðu ekki séð fegurðina og fjölbreytileikann. Þú ert ólíklegri til að skipta um skoðun, þú verður meira „tribal“ og umburðarlyndi þitt og virðing minnka.
Ég hef alltaf lagt áherslu á að ég viti ekki allt og þess vegna er ég forvitin, spyr spurninga, hlusta. Ég held að við séum að glata aðeins þeim hæfileika í þessum nýja veruleika. Ég held að efasemdir um eigið ágæti séu fullkomlega mannlegar og heilbrigðar og jafnvel að heiminum standi meiri ógn af hrokanum og fólki sem er yfirfullt af því að það viti allt, kunni allt og geti allt best og fái of mikla endurgjöf í einhverjum þröngum bergmálshelli um það.
Ég held að þetta sé ein af afleiðingum þessarar tækniþróunar sem við höfum velt einna minnst fyrir okkur. Það hvernig þessi hannaða sýn okkar á heiminn, hönnuð af fyrirtækjum sem eru að hagnast á okkur, er að gera okkur þröngsýnni, fordómafyllri, ræna okkur virðingu fyrir okkur sjálfum og öðrum, ræna okkur getunni til að ræða á uppbyggilegan máta um þær stóru áskoranir sem eru allt í kring, því að athyglissamfélagið sýgur alla orku til sín. Allt okkar ljós, hálfur okkar hugur og allt of stór hluti af hjarta okkar eru toguð inn í þennan sársaukafulla bergmálshelli sem veldur því að við sýnum of sjaldan það besta sem býr í okkur.“
Halla segir að raunheimurinn sé hins vegar fullur af því besta sem í okkur býr. Sem forseti sé hún svo heppin að fá að fara víða og kynnast frábæru fólki sem er að gera stórkostlega hluti. Hún telur að sýn fólks á samfélagið væri kannski önnur og jákvæðari ef við kynntumst því með beinum hætti, en ekki í gegnum samfélagsmiðla.
„Ég segi því bara: Lítum upp og leggjum snjalltækin frá okkur, allavega í einhvern tíma á hverjum degi. Máltíðir án síma, kennslustundir án síma, lestur bóka, útivera, samvera, söngur, dans, gleði. Horfumst í augu, tökum utan um hvort annað, gerum þessa hluti og sjáum bara hvort okkur líði ekki betur.“
Verum til staðar yfir jólin
Jólin eru hátíð ljóss og friðar og þegar Halla er spurð hvort við ættum kannski að stefna að símalausum jólum segir hún sjálfsagt að hafa að minnsta kosti hluta af jólunum þannig. Það sé líka mikilvægara að vera til staðar en að deila myndum á samfélagsmiðlum.
„Öll viljum við gjarnan deila gleði okkar og hlýju með öðrum, senda fólkinu sem okkur þykir vænt um, vinum og fjölskyldu, jólakveðjur. Sýna umheiminum ljósmyndir af matnum okkar, jólafötunum og gjöfunum. Það má samt alveg deila þessu efni seinna en á sjálfu aðfangadagskvöldinu. Það eru margir einmana um jólin og líða skort, eru ekki með dýrindis mat á borðum eða í nýjum sparifötum. Það felst kannski mest umhyggja og samkennd í því að vera til staðar fyrir þau sem eru með manni á þessari ljósmynd.
Sjálf er ég nú fremur gamaldags manneskja, ég hef alltaf fengið bækur í jólagjöf og gef mikið bækur. Ég veit ekki meiri hamingjustund en að kúra undir hreinum sængurfötum með nýja íslenska bók. Ég mæli eindregið með því að við deilum slíkum hefðum með börnunum okkar, að þetta sé hamingjan, engin gjöf hefur fært mér viðlíka hamingju og slík kyrrðarstund á aðfangadagskvöld. Það eina sem ég á erfitt með að sætta mig við með aldrinum er að ég næ ekki lengur að lesa í einni beit til 5 eða 6 á jóladagsmorgun, af því að ég er jafnan svo þreytt að ég sofna mun fyrr. Ég get hins vegar ekki beðið eftir að vakna snemma og halda áfram að lesa. Önnur hefð sem veitir mér hamingju um jólin er að kveikja á kerti við leiði í kirkjugarðinum og horfa jafnframt yfir öll kertin sem þar loga og sjá allt fólkið sem hugsar með þessum fallega hætti til ástvina sinna.
Ég hvet fólk til að hugsa um það í aðdraganda þessarar jólahátíðar hvar og hvernig það getur skapað slíkar stundir fyrir sig og sína. Og þó það sé alveg sjálfsagt að taka ljósmyndir af fólkinu sínu þá er vert að spyrja hvort það megi ekki aðeins slá því á frest að deila stundinni helgu með allri veröldinni.“
Andinn í bókhlöðunni á Bessastöðum er góður og ýtir undir innihaldsrík samtöl og samtalið heldur áfram á meðan forseti fylgir blaðamanni til dyra. Augljóst er að Halla brennur fyrir málefninu og vill láta gott af sér leiða. Á tröppunum á Bessastöðum, með útsýni yfir Álftanes og Faxaflóa, er komið að kveðjustund og foresti biður fyrir óskir til lesenda Skessuhorns um gleðileg jól.
Kolbeinn Óttarsson Proppé skráði
