Íbúar í Eyja- og Miklaholtshreppi eru gjafmildastir landsmanna

Íbúar í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi eru þeir Íslendingar sem eyða hlutfallslega mestu af sínum ráðstöfunartekjum í jólagjafir. Þetta kemur fram í jólakorti norrænu rannsóknastofnunarinnar Nordregio. Þar má greina hversu háu hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum íbúar í hverju sveitarfélagi á Norðurlöndunum eyða í jólagjafir. Þetta er fengið með að keyra saman niðurstöður könnunar YouGov frá árinu 2022 meðal íbúa Norðurlandanna um hversu miklu íbúar eyða í jólagjafir samanborið við tölur frá hagstofum landanna um ráðstöfunartekjur. Samkvæmt kortinu verja heimili í Eyja- og Miklaholtshreppi mestu allra landsmanna, eða 9,66% af ráðstöfunartekjum sínum í jólagjafir. Í öðru sæti eru íbúar í Fljótsdal með 9,09% og Árneshreppi með 9,04%. Í öðru sæti á Vesturlandi eru íbúar í Dalabyggð sem verja 8,86% og íbúar í Grundarfirði 8,47%. Í flestum öðrum sveitarfélögum á Vesturlandi verja íbúar frá 7-8% af ráðstöfunarfé sínu í jólagjafir. Einungis í Skorradalshreppi er hlutfallið lægra, eða 6,45%.