
Allar eyjar og sker innan tveggja kílómetra eru eignarlönd
Óbyggðanefnd kvað í gær upp úrskurði í þjóðlendumálum á eyjum og skerjum umhverfis landið, á svonefndu svæði 12 við málsmeðferð nefndarinnar. Um er að ræða síðustu úrskurði nefndarinnar. „Nú að lokinni málsmeðferð vegna eyja og skerja hefur óbyggðanefnd fjallað um mörk þjóðlendna og eignarlanda á landinu öllu. Þar með hefur nefndin lokið hlutverki sínu samkvæmt þjóðlendulögum, nr. 58/1998,“ segir í tilkynningu. Óbyggðanefnd var komið á fót við gildistöku laganna árið 1998 í þeim tilgangi að rannsakað yrði hvaða svæði á landinu væru eigendalaus, þ.e. utan eignarlanda, og þau yrðu úrskurðuð þjóðlendur. „Þar sem því verkefni er nú lokið á landinu öllu verður óbyggðanefnd lögð niður 1. janúar 2026, en þá taka gildi breytingar á þjóðlendulögum þess efnis.“