
Sextán tilnefnd til kjörs Íþróttamanneskju Akraness
Íþróttabandalag Akraness hefur birt lista með nöfnun 16 einstaklinga sem tilnefndir eru til kjörs á Íþróttamanneskju Akraness 2025. Kjörið fer fram á þrettándanum 6. janúar og verður í beinni útsendingu á ÍATV. Fljótlega opnar kosning fyrir íbúa inn í íbúagáttinni. Eftirfarandi eru tilnefnd og nefnd hér í stafrófsröð:
Aníta Hauksdóttir – Vélhjólaíþróttafélag Akranes
Aníta tók þátt í öllum enduro-keppnum á Íslandi árið 2025, sigraði þær allar og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Auk þess vann hún Járnkonuna á Flúðum með tímann 5 klukkustundir og sigraði kvennaflokk í Víkingabolaöldu.
Á alþjóðavettvangi náði hún eftirfarandi árangri: Silver Kings – Kláraði Bronze-flokk og hafnaði í 2. sæti í kvennaflokki. Tennessee Knockout – Keppti í Women's Pro-flokki og náði 6. sæti. Sea to Sky – Kláraði Bronze-flokk og varð í 3. sæti í kvennaflokki.
Með þessum árangri vann hún sér inn inngöngu í fyrstu heimsmeistaramótaröð kvenna í hard enduro árið 2026, með áunnin 15 stig á erlendum mótum tímabilsins. Hún þáði boðið og mun taka þátt í mótaröðinni.
Emma Rakel Björnsdóttir – Íþróttafélagið Þjótur
Emma Rakel hefur æft boccia hjá Þjóti frá stofnun félagsins og sýnt íþróttinni mikinn áhuga og eldmóð. Hún hefur tekið virkan þátt í keppnum fyrir hönd félagsins og náð góðum árangri, meðal annars þegar hún hlaut silfurverðlaun á Íslandsmóti í boccia sem haldið var á Akureyri í október síðastliðnum.
Með þátttöku sinni í starfi og keppnum félagsins hefur Emma verið félaginu til sóma. Hún hefur lagt sig fram um að vera til staðar, styðja við starfsemi félagsins og veita hjálparhönd þegar þörf hefur verið á.
Einar Margeir Ágústsson – Sundfélag Akraness
Einar Margeir, fæddur 2005, átti einstakt keppnisár og er meðal fremstu sundmanna landsins. Hann tryggði sér þátttöku á Heimsmeistaramótinu í Singapore og keppti á World Cup mótaröðinni þar sem hann náði sæti meðal efstu ellefu í öllum bringusundsgreinum. Á Smáþjóðaleikunum vann hann gull í 100 m bringusundi og í 4x100 m fjórsundsboðsundi á Íslandsmeti, auk silfurs í 50 og 200 m bringusundi. Hann komst í úrslit á EM U23 og varð Íslandsmeistari í 200 m bringusundi. Einar setti 10 Akranesmet á árinu og á besta tíma landsins í 50 og 200 m bringusundi.
Hann hóf nám í Bandaríkjunum í haust og hefur þegar tryggt sér lágmörk á NCAA, stærsta háskólamót Bandaríkjanna.
Finnbogi Laxdal Aðalgeirsson – Knattspyrnufélagið Kári
Finnbogi Laxdal hefur átt frábært ár með liði Kára og verið lykilleikmaður í velgengni liðsins á tímabilinu 2025. Liðið hóf árið með miklum krafti, sigraði flesta leiki og var taplaust fram í maí. Finnbogi átti stóran þátt í þessum árangri.
Kári náði sínum besta árangri í Bikarkeppni KSÍ þegar liðið komst í 16-liða úrslit en féll naumlega úr keppni gegn Stjörnunni. Með sterkum lokaspretti tryggði liðið áframhaldandi veru í 2. deild.
Á árinu spilaði Finnbogi alls 28 leiki í mótum KSÍ og skoraði 9 mörk. Fyrir frammistöðu sína hlaut hann afgerandi kosningu sem leikmaður ársins hjá Kára, valið af leikmönnum og þjálfurum liðsins.
Finnbogi er metnaðarfullur og öflugur leikmaður sem leggur sig 100% fram og er frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn.
Elizabeth Bueckers – Knattspyrnufélag ÍA
Elizabeth. spilaði lykilhlutverk í liðinu á tímabilinu og var fyrir framúrskarandi framlag sitt valin leikmaður ársins hjá meistaraflokki kvenna.
Hún var markahæsti leikmaður liðsins með 8 mörk í 15 leikjum, sem undirstrikar mikilvægi hennar í sóknarleik liðsins. Hún er hraður og kraftmikill leikmaður sem skapar stöðuga ógn fyrir andstæðinga.
Elizabeth er einnig mikil fyrirmynd innan liðsins. Hún leggur sig jafnan fram á æfingum og í leikjum og hefur með vinnusemi sinni og jákvæðu viðhorfi haft mjög góð áhrif á samherja sína og liðið í heild.
Fjalar Þórir Óttarsson – Badmintonfélag Akraness
Fjalar Þórir hefur æft badminton í fimm ár og æfir bæði með 1. flokki og fullorðinsflokki hjá Badmintonfélagi Akraness. Hann ferðast einnig vikulega til að æfa með UMFA og keppir í tvíliðaleik með Grími Frey Björnssyni.
Fjalar er samviskusamur, stundvís og sýnir mikinn metnað á æfingum.
Á árinu urðu Fjalar og Grímur Íslandsmeistarar í tvíliðaleik U17–19B á Íslandsmóti unglinga, unnu silfur á Reykjavíkurmeistaramóti og brons á Unglingamóti BH.
Fjalar er frábær fyrirmynd, alltaf jákvæður og hvetjandi, og hefur verið aðstoðarþjálfari yngri flokka í tvö ár. Hann hóf nám við Fjölbrautaskóla Vesturlands sl. haust og er á afrekssviði þar sem hann sameinar æfingar og bóklegt nám.
Guðmundur Andri Björnsson – Fimleikafélag ÍA
Guðmundur Andri er 18 ára Skagamaður, æfir hópfimleika með meistaraflokki ÍA og hefur tekið ótrúlegum framförum á árinu. Hann fékk leyfi fyrir þreföldum heljarstökkum í keppni og er í landsliðsúrtaki fyrir Evrópumótið 2026.
Guðmundur var lykilmaður í sögulegu afreki ÍA þegar liðið tryggði sér í fyrsta sinn þátttökurétt á Norðurlandamóti fullorðinna í Finnlandi, þar sem besti árangur liðsins var 4. sæti í dýnustökki.
Guðmundur er metnaðarfullur, vinnusamur og fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Hann hefur einnig sinnt þjálfun drengja í grunnhópum hjá félaginu og lagt sitt af mörkum til að efla drengjafimleika á Akranesi.
Með fagmennsku og jákvæðu viðhorfi er hann liðsmaður sem allir vilja hafa í sínum röðum.
Guðjón Gauti Vignisson – Lyftingadeild ÍA
Guðjón Gaut var valinn lyftingamaður ársins U15 á síðasta ári og keppir nú í U17 flokki. Hann er 16 ára og hefur þegar slegið 28 Íslandsmet í ólympískum lyftingum. Guðjón er kominn í landslið Íslands í lyftingum og keppti á Norðurlandameistaramóti í Svíþjóð, þar sem hann vann til bronsverðlauna í sínum flokki.
Guðjón er Íslandsmeistari unglinga í sínum þyngdar- og aldursflokki og náði 4. sæti á Íslandsmeistaramóti fullorðinna á þessu ári. Hann hefur sýnt gríðarlegar bætingar á stuttum tíma, þrátt fyrir að hafa aðeins stundað íþróttina síðan september 2023.
Hann æfir 5–6 sinnum í viku, fylgir stífu æfinga- og næringarplani og er á afreksíþróttabraut FVA.
Á fyrsta móti sínu árið 2023 lyfti Guðjón samanlagt 89 kg, en á haustmóti LSÍ í september 2025 lyfti hann samanlagt 208 kg – bæting upp á 119 kg á aðeins tveimur árum.
Guðlaugur Þór Þórðarson – Golfklúburinn Leynir
Guðlaugur Þór átti frábært ár í golfi og stimplaði sig inn sem einn efnilegasti kylfingur landsins. Hann varð Íslandsmeistari unglinga í höggleik og hafnaði í 2. sæti á Íslandsmóti unglinga í holukeppni viku síðar, afrek sem sjaldan sést í einstaklingsíþrótt.
Guðlaugur endaði í 3. sæti á stigalista Golfsambands Íslands, vann til verðlauna á meistaramóti Leynis og unglingamóti GSÍ. Hann var eini kylfingur Leynis sem keppti á Íslandsmótinu í golfi, þar sem aðeins 87 bestu kylfingar landsins fá þátttöku. Að loknu sumri tryggði hann sér sæti í landsliðshóp Íslands fyrir árið 2026 og stefnir á stór alþjóðleg verkefni.
Guðlaugur er aðeins 17 ára og þegar orðinn meðal fremstu kylfinga landsins.
Gunnar Hafsteinn Ólafsson – Pílufélag Akraness
Gunni Hó hefur átt frábært ár í pílukasti og staðfest stöðu sína meðal fremstu spilara landsins. Hann er Akranesmeistari í pílukasti og náði í 8 manna úrslit á Íslandsmótinu í 501. Gunnar tryggði sér einnig sæti í 8 manna úrslitum á alþjóðlega mótinu Iceland Masters, sem haldið var á vegum WDF.
Fyrir framúrskarandi árangur var hann valinn í landsliðsúrvalið fyrir Norðurlandamótið sem fram fer í vor.
Gunnar spilaði í úrvalsdeild ÍPS og Sýn Sport í vetur, eftir að hafa tryggt sér sæti með sigri í UK 1. Hann endar árið í 7. sæti á stigalista ÍPS, sem undirstrikar stöðugleika og hæfni hans í íþróttinni. Gunnar er metnaðarfullur og vinnusamur leikmaður sem stefnir á enn stærri árangur á lands- og alþjóðavettvangi.
Helgi Jón Sigurðsson – Kraftlyfingafélag Akraness
Helgi Jón lauk ungmennaferlinum í klassískum kraftlyftingum með glæsibrag árið 2025. Hann keppti á þremur alþjóðlegum mótum: HM og EM ungmenna og EM í opnum flokki, þar sem hann hafnaði í 16. sæti í gríðarsterkum flokki. Á HM bætti hann samanlagðan árangur sinn um 15 kg, tryggði sér lágmörk á EM og HM í opnum flokki og setti Íslandsmet.
Á EM í desember bætti hann sig enn frekar með 812,5 kg í samanlögðu og 320 kg í réttstöðulyftu – bæði Íslandsmet í ungmennaflokki og opnum flokki.
Helgi er 6. stigahæsti karlinn hjá Kraftlyftingasambandi Íslands og 2. stigahæsta ungmennið óháð kyni. Hann er fyrirmyndar íþróttamaður, metnaðarfullur og hvetjandi æfingafélagi sem stefnir á enn stærri árangur á alþjóðavettvangi.
Jacob Daníel Margrétarson – Karatefélag Akraness
Jacob hóf karateæfingar sex ára gamall hjá Karatefélagi Akraness og hefur alla tíð sýnt íþróttinni mikinn áhuga og eldmóð. Með árunum hefur þessi áhugi skilað stöðugum og frábærum árangri, þar sem Jacob hefur unnið til fjölda verðlauna á mótum innanlands.
Á árinu 2025 náði hann eftirfarandi árangri: Grand Prix 3 – 3. Sæti. Íslandsmeistaramót unglinga 2. sæti í Kata og 3. sæti í hópkata og á Reykjavík International Games 5. Sæti.
Hann er metnaðarfullur, vinnusamur og fyrirmynd fyrir aðra iðkendur, bæði á æfingum og í keppni.
Jakob Svavar Sigurðsson – Hestamannafélgið Dreyri
Reiðmennska Jakobs Svavars er ávallt til fyrirmyndar og hann er mikil fyrirmynd í hestaheiminum. Á Íslandsmóti 2025 náði hann glæsilegum árangri: Íslandsmeistari í tölti á Skarpa frá Kýrholti, 2.–3. sæti í slaktaumatölti á Hrefnu frá Fákshólum og 2. sæti í fjórgangi á Skarpa frá Kýrholti.
Jakob var jafnframt valinn Gæðingaknapi ársins 2025 á Uppskeruhátíð Landssambands hestamannafélaga í nóvember. Þar var sérstaklega tekið fram ,,Reiðmennska Jakobs geislar ávallt af fagmennsku og krafti, Jakob er gæðingaknapi ársins 2025.“
Jakob hefur einnig náð frábærum árangri á fjölmörgum öðrum mótum. Hann og Skarpur frá Kýrholti eru efstir Íslendinga í fjórgangi V1 á Alþjóðlegum WR-mótum og í 3. sæti á heimslista.
Jón Gísli Eyland Gíslason – Knattspyrnufélag ÍA
Jón Gísli spilaði alla leiki liðsins á tímabilinu og gegndi lykilhlutverki í þeim frábæra lokakafla sem tryggði ÍA sæti sitt í deild þeirra bestu, þar sem liðið vann 7 af síðustu 8 leikjum deildarinnar. Fyrir framúrskarandi frammistöðu sína var Jón Gísli valinn leikmaður ársins á lokahófi Knattspyrnufélags ÍA.
Jón Gísli er í hópi bestu bakvarða landsins. Hann var sá leikmaður sumar sem lagði upp flest færi á samherja af öllum leikmönnum í deildinni. Hann var á meðal fimm stoðsendingahæstu leikmanna deildarinnar á tímabilinu og eini varnarmaðurinn á þeim lista, sem undirstrikar mikilvægi hans bæði í varnar- og sóknarleik liðsins.
Auk afreka sinna á vellinum er Jón Gísli frábær fyrirmynd, sýnir mikla fagmennsku og vinnusemi og leggur sig af miklum metnaði fram við æfingar.
Matthías Leó Sigurðsson – Keilufélag Akraness
Matthías Leó hefur átt frábært ár í keilu. Hann efur náð góðum árangri á hinum ýmsu mótum sem að hefur skilað honum í efsta sæti á landsvísu til að taka þátt í sjónvarps mótaröðinni sem sýnd er í beinni útsendingu.
Hann komst næst lengst allra íslenskra keilara á Reykjavík International Games (RIG) og var með annað hæsta meðaltal á Íslandsmóti í tvímenningi, þar sem hann hlaut 3. sæti ásamt föður sínum, Sigurði Þorsteini Guðmundssyni. Matthías náði einnig 5. sæti á Íslandsmóti para og 6. sæti í einstaklingsflokki.
Hann stundar samviskusamlega nám á Afreksbraut hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands og er í 1. sæti í Meistarakeppni eftir þrjár umferðir af fimm. Matthías er metnaðarfullur og vinnusamur íþróttamaður sem hefur sýnt stöðuga frammistöðu og er vel að þessari tilnefningu kominn.
Styrmir Jónasson – Körfuknattleiksfélag Akraness
Styrmir hefur átt frábært ár. Hann var lykilmaður í liði ÍA þegar það tryggði sér sigur í 1. deild á þessu ári og er stigahæsti ungi leikmaður efstu deildar það sem af er leiktíðar. Styrmir hefur með frammistöðu sinni sýnt að hann er meðal bestu leikmanna landsins.
Á árinu tók hann einnig þátt í EM U20 með landsliði Íslands, þar sem hann stóð sig mjög vel og styrkti stöðu sína sem efnilegur landsliðsmaður.
Styrmir er gríðarlega vinnusamur leikmaður sem leggur mikið á sig til að ná árangri og er fyrirmynd fyrir aðra iðkendur félagsins. Með metnaði, fagmennsku og jákvæðu viðhorfi er hann mikilvægur hlekkur í liði ÍA.