Björgunarskipið Gísli Jóns ÍS. Ljósm. Björgunarfélag Ísafjarðar

Björgunarfélag Akraness kynnir leiðir til fjármögnunar nýs björgunarskips

Eins og fram kom í frétt Skessuhorns á dögunum stefnir Björgunarfélag Akraness að því að festa kaup á næsta ári á björgunarskipinu Gísla Jóns frá Ísafirði en nýtt skip, Guðmundur í Tungu, bættist í flotann á dögunum og leysti Gísla Jóns af hólmi.

Í frétt á vef Björgunarfélags Akraness er sagt frá þessum fyrirhuguðu kaupum. „Björgunarfélag Akraness stefnir á að sækja öflugra björgunarskip á nýju ári. Skipið okkar, Jón Gunnlaugsson hefur verið nýtt mjög vel þau ár sem það hefur verið í notkun hjá okkur. Við tókum það í notkun árið 2016 og síðan þá hefur það farið í yfir 50 útköll. Það hefur reynst í alla staði mjög vel en hefur þó þann stóra galla að ganghraði þess er of lítill þegar bregðast þarf skjótt við. Hafsvæðið sem við erum næsta viðbragð við er allt frá Hvalfjarðarbotni og út á Arnarstapa. Eftir því sem verkefnunum fjölgaði og ljóst þótti að nauðsynlegt væri meðal annars vegna öryggis áhafnar, að sækja öflugra skip, var upplagt að skoða þegar lá fyrir að nýtt björgunarskip væri að koma til Ísafjarðar að skoða með kaup á þeirra skipi, Gísla Jónssyni.“

Þá segir: „Þar sem stefna hefur verið tekin á kaup á öflugra björgunarskipi á Akranes er þörf á að safna fé til kaupanna. Við stefnum á að gera það með ýmsum hætti. Með sjálfboðavinnu, óska eftir styrkjum hjá fyrirtækjum og velunnurum, með aðstoð sveitarfélaganna, Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar og söfnun skilaskyldra umbúða. Sem dæmi um vel heppnaða fjáröflun tóku félagar björgunarfélagsins að sér að dreifa nýjum sorptunnuílátum fyrir Akranesbæ haustið 2024. Afraksturinn af þessari söfnun var nýttur til að skipta út 20 ára gömlum skápum í skáparými og gera það allt upp.“

Þá segir að söfnun skilaskyldra, endurvinnanlegra umbúða hafi reynst sveitinni vel í að safna fé til að endurnýja tæki og búnað. „Síðast nýttum við afrakstur dósasöfnunar til að endurnýja harðbotna bátinn okkar, Margréti Guðbrandsdóttir. Það á því vel við að tengja þessi kaup á Gísla Jónssyni, sem er úr áli, við þessa söfnun. Við reiknum með til viðbótar okkar föstu söfnunarstöðum að bjóða íbúum upp á tvær heimsóknir á ári til að sækja þar sem okkur býðst. Seinnipartinn í janúar og í lok ágúst (nánar auglýst þegar að kemur). Á starfssvæði Björgunarfélags Akraness eru fjórar hafnir; höfn Hvals hf, höfn Olíubirgðastöðvarinnar í Hvalfirði, Grundartangahöfn og Akraneshöfn. Mjög mikil skipaumferð er á svæðinu og sem dæmi eru oft daglega um 500 manns í hvalaskoðunarferðum stutt frá Akranesi. Á árinu 2025 hefur fjölmörgum útköllum á sjó verið sinnt. Engin alvarleg slys samt.“

Viðræður standa yfir við Björgunarbátasjóð Vestfjarða um kaup á þeirra skipi, Gísla Jónssyni sem var endurnýjað í nóvember með nýju skipi, Guðmundi í Tungu. Nú þegar hafa nokkur vilyrði borist fyrir stuðningi en þar sem verkefnið er nokkuð stórt á mælikvarða Björgunarfélagsins þarf að leita til samfélagsins um aukinn stuðning. Einnig standa yfir viðræður við sveitarfélögin, Hvalfjarðarsveit og Akranesbæ um stuðning. Hvalfjarðarsveit setti sig í samband við stjórn Björgunarfélagsins og bauð okkur að taka að okkur dreifingu á plastgrindum undir lífrænan úrgang frá heimilum. Það var því upplagt tilefni til þess að starta formlegri söfnun vegna skipakaupanna með því að taka að okkur þetta verkefni,“ segir í lokin á síðu björgunarfélagsins.