
Kílómetragjald verður tekið upp um áramótin
Alþingi samþykkti nú fyrir jól lög um kílómetragjald og taka þau gildi um áramót. Með lögunum verða olíu- og bensíngjöld felld niður og í staðinn tekið upp gjald sem miðast við hvern ekinn kílómetra. Kílómetragjald var fyrst tekið upp fyrir rafmagnsbíla 1. janúar 2024 en með nýju lögunum nær það til allra bíla. Lögin gera ráð fyrir að kostnaður vegna aksturs meðalbensínbíls haldist sambærilegur við það sem verið hefur en að áfram verði hagstæðara að aka á vistvænum ökutækjum. Með kílómetragjaldinu verður til stöðugur tekjustofn af umferðinni.